148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við getum eflaust haft ólíka skoðun á því hversu mikill tími er nauðsynlegur til að taka almennu umræðuna en hér eru 20 klukkutímar eða svo til að koma á framfæri sjónarmiðum við fyrri umr. þessarar ályktunar. Ég ítreka það sjónarmið mitt að það er í nefndinni sem öll vinnan fer í raun og veru fram. Hér er tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum og spyrja spurninga og velta vöngum yfir því hvort að hér séu mál nægilega vel undirbúin eða það sé líklegt eða ólíklegt að þessi áform gangi eftir eða menn ættu að vera með aðrar áherslur.

Í nefndinni geta menn síðan grúskað miklu meira í efnahagsspánni og auðvitað í síðari umræðu þegar öll nefndarálit liggja fyrir, verði þau mörg á annað borð, dýpkar umræðan heilmikið til viðbótar. Ég ætla ekki að gera lítið úr þörfinni fyrir að taka góða umræðu um þessa fjármálaáætlun. Ég minni aftur á að þó hún sé til fimm ára þá er hún til endurskoðunar á hverju ári. Allt það sem sagt hefur verið hér um gagnrýni á þessa fjármálaáætlun og á fyrri stigum um skoðun fjármálaráðs á fjármálastefnunni finnst mér hið besta mál.

Það sýnir að við erum búin að opna umræðuna og við erum að hleypa að ólíkum sjónarmiðum á vel skilgreinda stefnumörkun sem ríkisstjórnin teflir fram. Við erum búin að gjörbylta umræðunni um stefnumörkun og markmiðasetningu í opinberum fjármálum og þó að við eigum enn eftir að komast á lappir og hlaupa hratt við áætlunargerðina, í samskiptum þings og einstakra fagráðuneyta, þá finnst mér þessi fyrstu ár í nýju umhverfi fara vel af stað.