148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:42]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að fjalla stuttlega um fjármálaáætlunina sem hér er til umræðu. Ég vil fyrst vekja athygli á því, og kemur í raun ekki á óvart, að fjármálaáætlun byggist á fjármálastefnu. Það er áhyggjuefni því að mínu mati, og að mati flestra sem fjölluðu um fjármálastefnuna, var sú stefna óskýr, ótrúverðug og óraunsæ. Það bárust fjölmargar athugasemdir við fjármálastefnuna. Meiri hluti fjárlaganefndar ákvað að hunsa allar ábendingar og gerði engar breytingar á fjármálastefnunni.

Hér erum við að tala um ítarlegra plagg sem er fjármálaáætlunin sem á að gilda í fimm ár með möguleika á endurskoðun á hverju einasta ári.

Ég óttast að við séum kannski að feta sömu slóð hvað það varðar að hér sé á ferðinni fjármálaáætlun sem er óraunsæ, óábyrg, óskýr, ógagnsæ o.s.frv. En við munum sjá það í meðförum nefndarinnar, fjárlaganefndar, hvers konar viðbrögð þessi áætlun fær. En hingað til hafa þau flest verið mjög neikvæð.

Ég hef miklar áhyggjur af því að þessi fjármálaáætlun sé einfaldlega byggð á sandi eins og fjármálastefnan var kölluð draumsýn af fulltrúa fjármálafyrirtækja. Sagan er til að læra af. Þess vegna skil ég ekki af hverju hæstv. fjármálaráðherra tekur ekki inn í sína áætlanagerð þær sveiflur sem hið íslenska hagkerfi, með gjaldmiðli sínum, hefur óneitanlega alltaf sýnt. Hvernig getur ráðherra staðið hér og haldið að allt muni fara á allra besta veg að þessu sinni þótt hagstjórn hans flokks hafi undantekningarlítið endað með ósköpum? Af hverju fáum við ekki fjármálaáætlun sem tekur mið af raunveruleikanum en ekki pólitískri tálsýn ráðherrans? Þetta er áhyggjuefni að mínu mati. Við lifum í sveiflukenndu hagkerfi og sagan sýnir að við munum upplifa sveiflur í framtíðinni.

Það er rétt að halda því til haga að ytri aðstæður hafa verið jákvæðar. Við höfum fengið mikla innspýtingu í gegnum ferðamannastrauminn. Makríllinn synti inn í lögsögu okkar. Lágir vextir hafa verið í heiminum og lág verðbólga. Þannig að ytri aðstæður hafa verið okkur hagfelldar. Það hefur verið hagvöxtur sem má fagna sérstaklega eftir erfið ár í hruninu. Við erum á hátindi góðærisins að mínu mati. Þess vegna skiptir svo miklu máli hvernig við útdeilum þeim gæðum sem ríkið hefur úr að spila.

Hún er áhyggjuefni hagstjórnin sem birtist í þessari fjármálaáætlun og í máli hæstv. ráðherra. Ég hef kallað þetta mjög vonda hagstjórn. Hér á að lækka skatta á sama tíma og á að auka útgjöldin, en samt er verið að svíkja hin og þessi kosningaloforð. Þetta þrennt fer mjög illa saman að mínu mati og er áhyggjuefni.

Við sjáum að blikur eru á lofti í efnahagslífi heimsins. Við sjáum að blikur eru á lofti í okkar efnahagslífi. Það verða erfiðir kjarasamningar, að mínu mati, í haust. Við sjáum að það gætir vaxandi reiði í samfélaginu. Græðgisvæðingin, sem er hér alls ráðandi, hleypir illu blóði í almenning. Það berast fréttir af því að 26 bankamenn séu með einn milljarð í laun á ári, sem er einn fjórði af því sem þessi ríkisstjórn tímir að setja í vaxtabætur. Það eru svona fréttir sem ég hef áhyggjur af.

Sömuleiðis er áhugavert að skoða þróun samneyslunnar í þessari áætlun. Hæstv. ráðherra minntist aðeins á hana hér áðan. Samneyslan minnkar lítillega á næstu fimm árum og það er mjög áhugavert, sérstaklega í ljósi þess málflutnings sem Vinstri græn hafa teflt fram, ekki síst um fjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar. Þá hafði hæstv. forsætisráðherra sérstakt orð á því að hún teldi eðlilegt að samneyslan myndi aukast í ljósi þess að mikil opinber innviðauppbygging væri fram undan og í öðru lagi væri aldurssamsetning þjóðarinnar að breytast, við erum að eldast. Þetta myndi kalla á aukna samneyslu.

Þess vegna vekur það undrun mína að í þessari fyrstu fjármálaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er einmitt gert ráð fyrir því sem hún gagnrýndi fyrir nokkrum mánuðum, þ.e. að samneyslan sem hlutfall af landsframleiðslu er að minnka.

Þegar maður skoðar stóru tölurnar í þessu plaggi eru allar tölur mjög bólgnar í ljósi þess að við erum að tala um ríkisútgjöld til fimm ára. Þetta eru tæplega 4.500 milljarðar kr. Þess vegna er það ákveðið afrek, eins og ég gat um áðan, hversu mikil óánægja er með þetta plagg.

Öryrkjabandalagið kallar þessa fjármálaáætlun Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins ávísun á fátækt og eymd. Er þetta minnisvarði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur í sinni fyrstu fjármálaáætlun að leggja hér fram plagg sem Öryrkjabandalagið kallar ávísun á fátækt og eymd?

Alþýðusambandið hefur sömuleiðis lýst yfir óánægju með þetta plagg. Samtök iðnaðarins hafa einnig talað um að forsendur þessarar áætlunar séu ansi hæpnar. Og svo hafa hinir ýmsu sérfræðingar gagnrýnt, eins og ég gat um áðan, forsendur þessarar áætlunar um að spárnar séu mjög bjartsýnar, séu ekki raunsæjar. Það er auðvitað áhyggjuefni ef við erum að vinna út frá óraunsæju plaggi.

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Vinstri grænna talar um að þetta muni auka misskiptinguna. Hún varpar spurningu fram: Stöðugleika hvers er verið að vernda? Formaður Verkalýðsfélags Akraness fer mjög hörðum orðum um þessa áætlun og segir að í henni kristallist veruleikafirring og að skilningsleysi ríkisstjórnarinnar á málefnum lágtekjufólks sé algjört.

Þetta er enn eitt plaggið frá hæstv. ráðherra sem fær mjög harðan dóm frá hagsmunaaðilum, ekki bara frá stjórnarandstöðunni heldur frá hagsmunaaðilum sem láta sig þessi mál sig varða.

Mig langar að fara yfir örfá málefnasvið á þessum tímapunkti. Við ræddum aðeins um barnabætur, ég og hæstv. ráðherra í andsvari hér áðan. Eins og ég gat um áðan er ekki gert ráð fyrir neinni viðbót í barnabótakerfið. Sama krónutalan á að fara í barnabætur næstu fimm árin og núna. Það er enginn metnaður, engin innspýting í þetta lykilverkfæri velferðarkerfisins. Einn fjórði er dottinn úr barnabótakerfinu og hjón, eins og ég gat um áðan, með eitt barn fá engar barnabætur séu báðir aðilar með 470.000 kr. í tekjur eða meira.

Hér grundvallast pólitískur meiningarmunur milli Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Við lítum ekki á barnabætur sem fátækrastuðning. Við lítum á þetta sem bótakerfi gagnvart barnafjölskyldu til að mæta þeim kostnaði sem barnafjölskyldur verða fyrir á því tímabili í lífi sínu. Þess vegna eigum við að gera myndarlega við barnafjölskyldur. Við sjáum að fæðingartíðni hefur lækkað, hrapað ef svo má segja. Við þurfum að gera það ódýrara og auðveldara fyrir almenning að eiga börn og sinna þeim vel.

Við sjáum að barnabætur byrja að skerðast langt undir lágmarkstekjum. Þær byrja að skerðast við 242.000 kr. á mánuði. Hvers konar hugsun er það að láta barnabætur byrja að skerðast við 242.000 kr. á mánuði? Ríkisstjórnarflokkarnir felldu tillögu stjórnarandstöðunnar í desember um að láta skerðinguna a.m.k. hefjast við lágmarkslaunin sem eru 300.000 kr. Nei, sú tillaga var að sjálfsögðu felld.

Þetta er þvert á það sem margir þingmenn og ekki síst hjá Vinstri grænum hafa talað fyrir. Ég er með fullt af gömlum ræðum sem ég get farið hérna yfir, en ég hef ekki tíma til að fara yfir þetta allt saman, þar sem þingmenn Vinstri grænna hafa einmitt verið að kalla eftir auknum fjármunum í barnabótakerfið. Nú hafa þau tækifæri til þess og engar eru efndirnar.

Vaxtabæturnar eru sömuleiðis úrræði sem getur gagnast fólki sem reynir að ná endum saman á erfiðum húsnæðismarkaði. Ekki er króna sett til viðbótar í vaxtakerfið næstu fimm árin, ekki króna. Helmingurinn er dottinn úr vaxtabótakerfinu. Þetta er líka áhyggjuefni og sýnir þann pólitíska ágreining sem er á milli okkar og stjórnarflokkanna.

Húsnæðisstuðningurinn, hann helmingast. Þeir fjármunir sem eiga að fara í uppbyggingu á leiguíbúðunum helmingast á næstu árum. Það er ekki eins og ástandið á húsnæðismarkaðnum sé þannig að við höfum efni á því.

Þeir peningar sem fara til eldri borgara og öryrkja skýrast fyrst og fremst af fjölgun í þeim hópi.

Framhaldsskólinn, þessi menntasókn, fær nánast sömu krónutölu næstu fimm árin. Það er engin menntasókn að leyfa framhaldsskólanum að fá að halda þeim peningum sem hlutust af styttingunni vegna þess að því var lofað á sínum tíma.

Háskólinn fær aukningu, en það er bara einn þriðji af því til að ná þessu OECD-viðmiði sem stendur í stjórnarsáttmála að ætti að nást fyrir 2020. Það loforð er svikið.

Samgöngumálin eru sömuleiðis í samræmi við fimm ára meðaltal þess málaflokks. Við erum undir 10 ára meðaltalinu hvað þetta varðar.

Síðan er það skatturinn sem ég tek sérstaklega fyrir í sinni ræðu eða við síðari umr. Þar er svo sannarlega verið að forgangsraða í þágu ríkra. Það á að lækka skatta á hina tekjuháu og banka (Forseti hringir.) sem að mínu mati er afskaplega sérkennileg forgangsröðun á þessum tímapunkti.