148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér var flutt löng ræða um að auka þyrfti útgjöld mjög víða. Það er alveg sama hvar borið var niður, í barnabótum, í vaxtabótum, sem hafa verið verulega umfangsmikil og dýr bótakerfi, samtals upp á 15 milljarða í dag, eða í öðrum stuðningi við tekjulága. Sömuleiðis var talað um að gera þyrfti miklu meira í skólamálum, hvort sem væri á háskólastigi eða framhaldsskólastigi o.s.frv. Þetta kallar auðvitað á spurninguna: Hvers konar fjármögnun sér hv. þingmaður fyrir sér?

Ef við horfum á tekjuskattskerfið til fjármögnunar á svona útgjöldum þá er alveg ljóst að það dugar ekkert að tala um einhvern hátekjuskatt til að mæta útgjöldum af þessum toga. Þá er ég að tala um hátekjuskatt eins og við höfum þekkt hann hér í framkvæmd á Íslandi. Það er alveg ljóst að ef það á að fara að fjármagna svona hluti í gegnum tekjuskattskerfið að það er millitekjufólkið sem ber það, annað skilar engum raunverulegum tekjuauka.

Ef verið er að horfa til sérstakra skatta eins og auðlegðarskatta væri ágætt að hv. þingmaður myndi gera grein fyrir því hvort hann teldi að útgerðin myndi bera stórhækkuð veiðigjöld nú þegar fréttir berast af því að útgerðin sé í basli með að bera þau gjöld sem síðast voru lögð á. Eða hvað annað er hv. þingmaður að tala um?

Er hv. þingmaður að tala fyrir því að sérstaki bankaskatturinn, sem var settur á hér á haftatímabilinu og bjagar samkeppnisumhverfi fjármálafyrirtækja í landinu, verði kannski hækkaður eða honum viðhaldið til að kreista fjármálafyrirtækin enn frekar? Sá skattur endar auðvitað bara í hærri vöxtum á viðskiptamenn bankanna. Hvar er það sem hv. þingmaður ætlar að fjármagna þetta? Og um hve marga tugi milljarða ætlar hann að hækka skattana?