148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:01]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Sú fjármálaáætlun sem hér hefur litið dagsins ljós veldur vonbrigðum. Undir það hafa m.a. hagsmunasamtök launþega tekið og Samtök iðnaðarins svo einhver séu nefnd. Stóru fréttirnar í þeim efnum eru þær að áætlunin færir þeim sem höllum fæti standa í samfélaginu ekki nein gleðitíðindi. Barnabætur, vaxtabætur og húsnæðisstuðningur, þessi mikilvægu úrræði, eru ekki efst á vinsældalista ríkisstjórnarinnar. Væntingar um að í því góðæri sem hér hefur ríkt væri hægt að færa hópum á borð við öryrkja og eldra fólk löngu tímabærar leiðréttingar eru að engu hafðar. Áfram verða við lýði ómanneskjulegar skerðingar á tekjum, einkum meðal öryrkja.

Á sama tíma er bráðnauðsynlegt í huga ríkisstjórnarinnar að lækka sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, bankaskattinn, sem kemur til með að gagnast vogunarsjóðunum sérstaklega. Þeir munu hagnast um 2 milljarða á þessari lækkun, en lækkunin nemur alls um 5,7 milljörðum. Þetta er sérstakt áhugamál Sjálfstæðisflokksins og greinilegt að Vinstri grænir og félagshyggjuflokkurinn Framsókn hafa tiplað á tánum í kringum hæstv. fjármálaráðherra í þessu máli.

Þessi þjónkun við vogunarsjóðina hjá ríkisstjórninni ætlar engan endi að taka. Hver hefði trúað því að þetta væru áherslur Vinstri grænna, að þetta væru áherslur hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur?

Bætum kjör eldra fólks. Tryggjum þátttöku eldra fólks á öllum sviðum samfélagsins. Eldra fólk er auðlind.

Þetta eru falleg orð. Þau eru úr stefnuskrá Vinstri grænna fyrir síðustu kosningar. VG gleymdi bara að segja að ef þau kæmust til valda myndu þau skattleggja þessa auðlind og helst sem mest.

Í fjármálaáætluninni segir að stefnt sé að afnámi krónu á móti krónu skerðingar. Aðgerðir og tímasetningar eru hins vegar hvergi sjáanlegar í þessari áætlun. Með öðrum orðum, það verður ekkert gert í þessu óréttlæti næstu fimm árin. Hér hefur ríkt góðæri og er sorglegt að þessi þjóðfélagshópur skuli enn og aftur vera látinn sitja á hakanum þrátt fyrir fögur fyrirheit.

Það er nokkuð lýsandi fyrir margt í þessari áætlun. Orðalag á borð við „stefnt skal að“, „kanna“, „skoða og endurskoða“, „móta og þróa“ kemur víða fyrir. Minna fer fyrir hugtökum eins og að „gera“ og „innleiða“. Í meginatriðum einkennist þessi áætlun af bjartsýni þegar kemur að verðmætasköpun, tekjum ríkissjóðs og hagvexti. Það er á skjön við það sem kom fram í meginþorra þeirra umsagna sem fjárlaganefnd barst um fjármálastefnuna. Það kom skýrt fram að niðursveifla væri fram undan og lækkanir í kortunum hvað hagvöxt varðar. Seðlabankinn lýsti m.a. áhyggjum yfir því að fjármálastefna ríkisstjórnarinnar væri ekki nógu aðhaldssöm.

Það er jákvætt að á tímabili fjármálaáætlunarinnar skuli áfram unnið að því að lækka skuldir ríkissjóðs og að undir lok tímabilsins, árið 2023, skuli stefnt að því að skuldahlutfallið sem hlutur af vergri landsframleiðslu verði komið niður í 21%. Það er athyglisvert að skuldastaða ríkissjóðs skuli nú vera að mörgu leyti mun sterkari en hún var fyrir hrun. Þar skipta höfuðmáli stöðugleikaframlög frá slitabúum föllnu bankanna sem formaður Miðflokksins leiddi af mikilli festu og hæstv. forsætisráðherra þakkaði honum sérstaklega fyrir í umræðum í þinginu fyrir skömmu.

Þó að vissulega sé mikilvægt að greiða niður skuldir, og sá sem hér stendur er talsmaður ráðdeildarsemi í fjármálum og vill helst skulda sem minnst, þarf að ræða það opinskátt hvort sé skynsamlegra að greiða niður skuldir á sama tíma og innviðir, eins og vegakerfið, liggja undir skemmdum. Þetta er svipað og að eyða engu í viðhald á eigin húsnæði og á endanum fellur það í verði og verður jafnvel ónothæft. Innviðir eins og vegakerfi eru verðmæti sem verður að halda við, ekki síst vegna öryggissjónarmiða.

Eins og fram hefur komið ætlar ríkisstjórnin að bæta aukalega 5,5 milljörðum í sérstakt átak í samgöngumálum árlega næstu þrjú árin, frá 2019 að telja. Samtals gerir þetta 16,5 milljarða. Komið hefur fram að átakið verði fjármagnað með arðgreiðslum úr bönkunum. Í því sambandi má benda á að þessa upphæð hefði sennilega verið hægt að tvöfalda ef ríkisstjórnin hefði staðið í lappirnar í Arionbankamálinu. Auk þess er um að ræða 25% hækkun til málaflokksins frá fjárlögum 2016–2018. Þótt vissulega beri að fagna auknum fjárveitingum til þessa mikilvæga málaflokks er þörfin langtum meiri eins og allir vita og hefur komið hér fram, m.a. í málflutningi hæstv. fjármálaráðherra.

Auk þess var ríkisstjórnin búin að ala á miklum væntingum almennings, ekki síst vegna þess að hún var með stórar yfirlýsingar um verulegt átak í þessum málaflokki, yfirlýsingar sem síðan hafa ekki staðið undir væntingum. Í raun var þessi ríkisstjórn mynduð um þann málaflokk, innviðauppbyggingu.

„Fjármálaáætlunin endurspeglar þær áherslur sem ríkisstjórnin var mynduð um.“ Þetta hefur hæstv. samgönguráðherra m.a. sagt og ég verð að segja: Rýr er nú heimanmundurinn.

Ég fagna því að árið 2021 eigi að ljúka átakinu Ísland ljóstengt. Hér er um mjög mikilvægt samfélagsverkefni að ræða. Ég sakna þess hins vegar að ekkert er minnst á þrífösun rafmagns í þessari áætlun.

Einbreiðum brúm á að fækka um níu talsins á næstu fimm árum. Það þykir mér rýrt í átaki sem hefur verið kallað stórátak í samgöngumálum.

Í heilbrigðismálum kemur ekki á óvart að það eigi að halda áfram uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut. Þar hafa stjórnarflokkar eins og Framsóknarflokkurinn svikið kjósendur sína eftirminnilega.

Ekki verður séð að auka eigi sérstaklega fjárframlög til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.

Kaflinn um landbúnað er athyglisverður. Í fyrsta lagi hefur ríkisstjórnin greinilega engar áhyggjur af tollasamningnum við ESB sem tekur gildi 1. maí nk. Engar mótvægisaðgerðir eru boðaðar í fjármálaáætluninni til að mæta þeim miklu áhrifum sem tollasamningurinn kemur til með að hafa á innlenda búvöruframleiðslu. Gleymum því ekki að u.þ.b. 11.000 manns hafa atvinnu af landbúnaði og að öll ríki vernda sinn landbúnað með einum eða öðrum hætti.

Fjölmörg störf í landbúnaði geta verið í hættu vegna samningsins sem kemur til með að leiða til aukins innflutnings á landbúnaðarvörum í samkeppni við íslenskan landbúnað. Á þetta einkum við í kjöti og ostum. Til hvaða aðgerða ætlar ríkisstjórnin síðan að grípa til að mæta aukinni samkeppni í landbúnaði vegna innflutnings frá ESB? Það á að leysa málið, eins og segir í áætluninni, með nýsköpun, vöruþróun og nýtingu tæknimöguleika. Síðan er talað um aukin tækifæri í landbúnaði með þessum samningi. Bændur hafa ekki komið auga á þessi tækifæri. Búnaðarþing hefur ályktað um nauðsyn þess að segja samningnum upp og semja upp á nýtt, m.a. vegna brostinna forsendna. Nú þegar Bretar eru að ganga úr ESB hverfur okkar stærsta og besta markaðssvæði úr samningnum. Samkeppni er af hinu góða, en hún verður að vera á jafnræðisgrunni. Samningurinn er ójafn og það þarf að semja upp á nýtt.

Það er dapurlegt að flokkur eins og Framsóknarflokkurinn sem nú situr í ríkisstjórn og ávallt hefur gefið sig út fyrir að vera sérstaklega hliðhollur bændum skuli ekki hafa neinar áhyggjur af þessu máli.

Ekkert er fjallað um EFTA-dóminn þar sem dæmt var að innflutningstakmarkanir á hráu kjöti væru ólögmætar. Því virðist algjörlega í lausu lofti hvernig ríkisstjórnin ætlar að bregðast við dómnum.

Í næstu ræðu mun ég koma nánar inn á þetta mál og fleiri áherslur sem er að finna í fjármálaáætluninni.