148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:11]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér hefur verið mælt fyrir fjármálaáætlun fyrir næstu fimm ár. Sú áætlun sem um er að ræða er uppbyggingaráætlun með stórfelldum umbótum á innviðum landsins. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er full alvara með að nýta það svigrúm sem hagvöxtur síðustu ára hefur skapað til að bæta kjör fólks í landinu.

Á gildistíma áætlunarinnar verður fjárfest fyrir 338 milljarða í innviðum landsins, sjúkrahúsum, vegum, brúm, hjúkrunarheimilum, jarðgöngum, þyrlum fyrir Gæsluna, Herjólfi og Húsi íslenskunnar svo eitthvað sé nefnt. Þá fjárfesta sveitarfélög líka í gatnagerð, grunnskólum, íþróttamannvirkjum og holræsum. Allt spilar þetta saman.

Til að samfélaginu gangi vel til lengri tíma þarf sígandi lukku. Við fjárlagagerð 2018 var tónninn gefinn, en þá var aukið í útgjöld ríkissjóðs um 47 milljarða kr. Þar af fóru tæpir 17 milljarðar í heilbrigðiskerfið og tæpir 12 í félags- og húsnæðismál. Þá voru framkvæmdir við Dýrafjarðargöng fjármagnaðar og stofnframlög til byggingar og kaupa á almennum íbúðum aukin. Framlög voru hækkuð til framhalds- og háskóla um 4 milljarða. En það er enn hægt að gera betur og það ætlar þessi ríkisstjórn að gera. Með kröftugri innspýtingu verður viðspyrna í hagkerfinu er það aðlagast lægri hagvexti. Ríkissjóður stendur vel, verður áfram rekinn með myndarlegum afgangi og heldur áfram að greiða niður skuldir.

Árleg útgjöld ríkissjóðs verða aukin um 132 milljarða frá því að ríkisstjórnin tók við gangi forsendur eftir. Fyrir síðustu tvennar kosningar hafa Vinstri græn talað fyrir því að svara þyrfti kalli almennings og auka ríkisútgjöld um allt að 50 milljarða á kjörtímabilinu. Forgangsröðunin er skýr, að venjulegt fólk fái aðgang að betri heilbrigðisþjónustu, betra velferðarkerfi, betri samgöngum og betri menntun. Þá er horft til framtíðar með því að auka framlög til menntamála og nýsköpunar. Auk þess verðum við að bregðast við röskun loftslags af mannavöldum, standa við gerða samninga um samdrátt í losun fyrir árið 2030 og búa samfélagið undir að verða kolefnishlutlaust fyrir árið 2040.

Samkvæmt þjóðhagsspá sem liggur til grundvallar fjármálaáætluninni er íslenska hagkerfið komið yfir topp hagsveiflunnar. Í spánni er reiknað með því að hagkerfið aðlagist hægari vexti næstu misserin. Hagvöxtur dregst saman hraðar en búist var við en hann hefur verið í kringum 4,4% á ári frá árinu 2014 sem til lengri tíma myndi þýða að hagkerfið tvöfaldaðist á 16 ára fresti.

Hagvöxtur síðustu ára getur því tæpast haldið áfram án þess að verðbólgudraugurinn geri vart við sig. Vöxturinn síðustu ár hefur verið drifinn áfram á breiðum grunni en einkaneysla, fjárfesting og útflutningur hafa vaxið, að töluverðu leyti vegna mikils vaxtar í ferðaþjónustu. Það er mjög mikilvægt hagsmunamál að vel takist til að lenda hagkerfinu en það hefur verið undantekning frekar en regla í íslenskri hagsögu að hagkerfið lendi mjúklega að loknu vaxtarskeiði. Það er því snúin jafnvægislist að haga hagstjórninni með þeim hætti að velferð landsmanna til skamms og langs tíma sé hámörkuð. Það er nefnilega hið eina hlutverk ábyrgra stjórnvalda, að hámarka velferð landsmanna samtímis, til skamms og langs tíma.

Líkt og sagt var fyrir kosningar stendur ekki til að hækka skatta á almenning á Íslandi. Hins vegar ætlum við að hliðra til innan skattkerfisins til að gera það réttlátara. Markmiðið er að auka sérstaklega ráðstöfunartekjur lágtekjuhópa og þeirra með lægri millitekjur. Eins og kemur fram í stjórnarsáttmála mun fara fram heildarendurskoðun á tekjuskattskerfinu samhliða endurskoðun á bótakerfum. Þessi vinna fer fram í samráði við verkalýðshreyfinguna til að tryggja að breytingarnar skili fólkinu í landinu raunverulegum ávinningi. Hér er sérstaklega horft til þess að skoða mögulegar breytingar á persónuafslætti og samspili bótakerfa, bæði barna- og vaxtabóta. Þá er einnig fram undan að vinna með aðilum vinnumarkaðarins að því að lengja fæðingarorlof og fjármagna þá aðgerð.

Framlög til félags- og húsnæðismála verða 40 milljörðum hærri á árinu 2023 en árið 2017. Mikið hefur verið rætt um húsnæðismarkaðinn síðustu ár og hversu snúið það er fyrir ungt fólk að koma sér þaki yfir höfuðið. Framtíðarsýn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur verið sú að húsnæðiskostnaður fari ekki yfir fjórðung af ráðstöfunartekjum ásamt því að styðja við uppbyggingu húsnæðis á félagslegum forsendum, til að leiguhúsnæði verði raunverulegur valkostur fyrir ungt fólk á húsnæðismarkaði. Auknum fjármunum verður þess vegna varið í húsnæðisstuðning til að ná markmiðum um byggingu 2.100 leiguíbúða sem sett voru í kjarasamningum árið 2015.

Húsnæðisbætur voru hækkaðar um tæp 5% í byrjun árs 2018 og fylgdu almennri þróun bóta. Heildarstefna um húsnæðisstuðning til framtíðar liggur hins vegar ekki fyrir en stefnan er að ljúka vinnu við endurskoðun á tekjuskatts- og bótakerfum fyrir afgreiðslu fjárlaga árið 2019 og setja í gang þá vinnu sem snýr að húsnæðismálum.

Í samráði við Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp er stefnt að því að endurskoða og skapa sátt um kerfið og tryggja framfærslu og á næsta ári koma 4 milljarðar aukalega, umfram kerfislægan vöxt, vegna áætlaðrar fjölgunar öryrkja sem mun haldast út tímabil áætlunarinnar.

Miklar breytingar voru gerðar á ellilífeyri almannatrygginga sem tóku gildi 1. janúar sem urðu mörgum eldri borgurum kjarabót og um mitt ár kemur til framkvæmda lækkun á gjaldskrá vegna tannlækninga. Þrátt fyrir að flestir eldri borgarar búi við góð lífskjör er hluti hópsins með afar takmörkuð eða engin réttindi úr lífeyrissjóðum og stundar ekki launaða vinnu, hefur lágar tekjur sér til framfærslu, er á almennum leigumarkaði og jafnvel skuldsettur. Þeir sem þannig eru settir þurfa að reiða sig nær eingöngu á ellilífeyri almannatrygginga og greiðslur honum tengdum sér til framfærslu. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að styrkja þurfi sérstaklega stöðu þeirra eldri borgara sem standa höllum fæti. Er þar lagt til að gerð verði sérstök úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, gerðar tillögur til úrbóta og þeim fylgt eftir.

Þungamiðjan í útgjöldum ríkisins er í heilbrigðismálum. Um þriðja hver króna sem fer úr ríkissjóði fer í heilbrigðismál. Þjóðin er að eldast og líklegt er að fólki með lífsstílstengda sjúkdóma fjölgi á komandi árum og áratugum. Það er ekki hægt að vinna baráttuna um heilbrigt samfélag eingöngu með útgjöldum til heilbrigðismála, en þar er sannarlega hægt að tapa henni. Því leggur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ríka áherslu á heilbrigðismál og eru árleg útgjöld til heilbrigðismála aukin um 40 milljarða til viðbótar við þá 20 milljarða sem varið var með fyrstu fjárlögum yfirstandandi árs.

Byrjað verður á nýjum Landspítala og framkvæmdir við byggingu meðferðarkjarna, rannsóknahúss og bílastæðahúss munu standa yfir allt tímabilið. Þá verður hafist handa við byggingu legudeildar við Sjúkrahúsið á Akureyri. Einnig verður greiðsluþátttaka almennings lækkuð sem er í anda stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem vill stefna á það markmið að öll heilbrigðisþjónusta á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum verði gjaldfrjáls. Auka á framlög í geðheilbrigðismál og koma á fót geðheilbrigðisteymum í þeim landshlutum þar sem þau eru ekki til staðar og fjölga þeim á höfuðborgarsvæðinu.

Til að ná markmiðum um að stytta biðtíma eftir hjúkrunarrýmum þarf að fjölga þeim allnokkuð. Uppbyggingu hjúkrunarrýma verður haldið áfram og þeim fjölgað um fimmtung á tímabili fjármálaáætlunarinnar. Að sama skapi er stefnt að því að fjölga dagdvalarrýmum og bjóða upp á sérhæfðar hjúkrunarrýmisdeildir sem sinni þjónustu við aldraða með geð- og fíknivanda. Áhersla verður á það að fjölga heilbrigðisstarfsfólki sem býr við gott starfsumhverfi og góð starfskjör því að hjartað í heilbrigðiskerfinu er fólkið sem þar vinnur. Það verður að bjóða því upp á tækifæri til starfsþróunar og þátttöku í vísindastarfi.

Tónninn var sleginn í fjárlögum ársins 2018, en þar var tæpum 4 milljörðum varið til að efla framhalds- og háskólastigið. Eftir að framhaldsskólinn var styttur fækkaði framhaldsskólanemum en framhaldsskólar halda nú þeim fjármunum sem sparast vegna styttingarinnar. Gangi spár um fjölda nemenda eftir munu framlög á nemanda aukast um fimmtung frá árinu 2017 til 2020. Miðað við mannfjöldaspá Hagstofunnar munu framlög til háskóla aukast á hvern nemanda. Fyrirhugað er að fjárveitingar muni aukast um tæp 12% að raungildi á tímabili ríkisfjármálaáætlunar.

Þá mun Hús íslenskunnar rísa og lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna verða endurskoðuð. Þá verður virðisaukaskattur á bækur afnuminn á næsta ári, en það gagnast öllum skólastigum, íslenskunni og Íslendingum.

Það er stefna ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að uppfylla skuldbindingar í loftslagsmálum ásamt því að nýting landsins sé sjálfbær. Ísland hefur skuldbundið sig til að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2030 og stefnir að því að Ísland verði orðið kolefnishlutlaust árið 2040. Mikilvægt er að huga einnig að því að ná fram fleiri markmiðum samhliða því að sækja fram í loftslagsmálum. Framlög til umhverfismála voru aukin í fjárlögum yfirstandandi árs og eru aukin enn frekar í fjármálaáætluninni. Samtals er þetta 35% aukning í málaflokkinn.

Einnig þarf að bregðast við fjölgun ferðamanna við helstu náttúruperlur landsins og markmiðið er að árið 2023 verði álag á 19 af hverjum 20 áfangastöðum innan þolmarka. Þá er stefnt að því að móta og innleiða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum fyrir Ísland til ársins 2030 ásamt því að styðja við sveitarfélög og fyrirtæki um að setja sér markmið í loftslagsmálum. Þá verður stofnaður miðhálendisþjóðgarður og sett á fót þjóðgarðastofnun til að sjá um utanumhald um þjóðgarða og friðlýst svæði.

Herra forseti. Það er ástæða til að rifja upp til hvers þessi ríkisstjórn var mynduð. Hún er mynduð af ólíkum flokkum sem slíðruðu flokkssverðin, lögðu helstu ágreiningsmálin til hliðar til að komast að sameiginlegum markmiðum, til að sækja fram fyrir íslenskt samfélag, fyrir almenning þessa lands.

Þessi áætlun tryggir fjárframlög til þess. Það liggur hér á borðinu.