148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:26]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nú bara skýrt í töflunni. Þetta er nokkurn veginn sama upphæðin sem fer í framhaldsskóla 2018 og 2023, þannig að það er engin innspýting hvað varðar framhaldsskóla. Það er áhugaverð yfirlýsing af hálfu þingmanns Vinstri grænna að taka undir orð hæstv. fjármálaráðherra um barnabæturnar, um að þetta eigi að vera einhver fátækrastyrkur. Það eru ný tíðindi í íslenskri pólitík að Vinstri græn séu farin að taka undir málstað Sjálfstæðismanna þegar kemur að barnabótunum.

Þingmaðurinn talaði um til hvers þessi ríkisstjórn hafi verið mynduð. Hún var mynduð fyrir almenning. Við sjáum það einmitt ekki í þessari ríkisfjármálaáætlun að hagsmunir almennings séu í forgangi. Af hverju stendur hv. þingmaður því fyrir 1% flatri tekjuskattslækkun sem gagnast best þeim sem hæstar hafa tekjurnar? Af hverju stendur þingmaðurinn á bak við tillögu sem gerir ráð fyrir að lækka skatt á banka um 6 milljarða? Og af hverju er þingmaðurinn að kalla eftir útgjaldaþaki í nefndaráliti sínu við fjármálastefnuna sem hún barðist hatrammlega gegn, þessari útgjaldaþaksreglu sem var í fjármálastefnu (Forseti hringir.) fyrri ríkisstjórnar, sem með réttu var tekin út? En síðan stendur hv. þingmaður fyrir því að kalla eftir þessari sömu útgjaldareglu. Ég skil ekki þau sinnaskipti frekar en mörg önnur.