148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:29]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að leita álits hv. þingmanns á því að í þessari fjármálaáætlun er gert ráð fyrir auknum útgjöldum án öflunar tekna á móti. Í raun og veru er gert ráð fyrir tekjulækkun á móti. Hvaða ráð hafa helstu sérfræðingar gefið fjárlaganefnd um þess háttar hagstjórn, sérstaklega á hagvaxtarskeiði?

Einnig kemur fram í fjármálaáætlun að það eigi að greiða niður skuldir, lækka fjármagnskostnað og ekki veita neinar nýjar ríkisábyrgðir. Af einhverjum undarlegum orsökum hækkar samt kostnaður á málefnasviði 33 um fjármagnskostnað, ríkisábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar. Af einhverjum undarlegum orsökum passar þetta ekki alveg saman. Það á að lækka allt sem kemur að því málefnasviði, en samt hækkar kostnaðurinn á því. Ég skil ekki alveg af hverju.

Áðan var minnst á húsnæðisstuðninginn. Hann er að minnka samkvæmt tölunum í fjármálaáætluninni. Samt segir hv. þingmaður að það eigi að auka húsnæðisstuðninginn, leggja eitthvað þar í. Það sést ekki í tölunum í áætluninni. Það er tekið fram að sérstöku átaki í uppbyggingu á leiguíbúðum hafi verið hætt en það er ekkert sagt að neitt eigi að koma í staðinn. Tölurnar gera ekki ráð fyrir neinu í staðinn. Ég spyr: Ef það er eitt sem hv. þingmaður segir að eigi að gera en það kemur samt ekki fram í tölunum, er þá eitthvað að marka tölurnar sem eru eftir 2019? Ég sé það ekki.

Að lokum, hv. þingmaður talaði mjög mikið um hvað ætti að gera. Ég sé því miður ekki mikið um að ná þeim markmiðum í fjármálaáætluninni. Ég hefði gert ráð fyrir því að talað hefði verið um hvaða markmiðum ætti að ná með þessari fjármálaáætlun en ekki bara hvað Vinstri grænir vilja gera utan fjármálaáætlunar.