148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:32]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég vil ekki líta svo á að þetta sé bara eitthvað sem við óskum okkur að gera og komi ekki fram. Hér eru fjármunir og eins og hv. þingmaður þekkir erum við ekki búin að sjá þá sundurliðaða niður á hvern einasta málaflokk. Það er nokkuð sem á eftir að skýrast enn frekar og við erum þarna með stóru tölurnar.

Við stöndum, eins og ég sagði, við gerða samninga í húsnæðismálunum. Það er aukning frá því sem var, en hins vegar er það ekki sú viðbót sem hv. þingmaður hefði viljað sjá. Það er aftur annað mál.

Varðandi tekjurnar, eins og hér hefur komið fram vaxa tekjur vegna tekjuskatts einstaklinga gríðarlega mikið. Í ljósi þess að við erum komin yfir topp hagsveiflunnar og hagvöxtur gefur eftir þekkjum við hvernig við þurfum að bregðast við og að ríkið komi með innspýtingu til að styðja við viðspyrnu í hagkerfinu. Þannig leggjum við áherslu á það að skapa forsendur til að vöxtur geti haldið áfram og lífskjör batnað.

Ríkissjóður stendur sterkt. Ég held að enginn geti dregið það í efa. Af því að hagkerfið gefur ekkert eftir teljum við í augnablikinu ekki þörf á því að ráðast í skattheimtu til sveiflujöfnunar. Okkur hefur svo sem verið sagt þetta með sveiflujöfnunina og það er ekki endilega skynsamlegt þegar við reynum að örva hagkerfið.

Það er kannski meginástæðan fyrir því að við teljum ekki þurfa að ráðast í aukna skattheimtu. Auðvitað ætlum við að reyna, eins og ég sagði áðan, að endurskoða tekjuskattinn og annað slíkt í samræmi við verkalýðshreyfinguna eins og áður hefur komið fram.