148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:35]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum aftur fyrir andsvarið. Við höfum alveg talað saman um að þetta með að fá nánara niðurbrot gæti verið heppilegra. Þrátt fyrir að þetta séu aðeins tveggja ára gömul lög gætu einhverjir sagt að búið væri að kjósa of oft á tímabilinu og einhvern veginn höfum við ekki náð að þróa þessa vinnu eins og við hefðum viljað gera ef við hefðum gengið í gegnum hefðbundin tímabil.

Það er margt sem við þurfum að bæta í verkferlinu. Við sáum það t.d. núna þegar þurfti að prenta upp aftur. Eitthvað faglegt þarf að eiga sér stað til að við getum innt þetta betur af hendi og skilað rýmri upplýsingum fyrr en ella. Við erum búin að ræða það innan þingflokks Vinstri grænna hvernig við getum hugsanlega bætt verkferla til að standa ekki frammi fyrir slíku.

Varðandi tekjustofnana er alveg rétt að ef það kemur einhver ægileg dýfa — sem ég vona svo sannarlega að verði ekki, ég á ekki von á því að hér verði hrun, (Forseti hringir.) það er enginn að spá því eins og við upplifðum síðast — stendur ríkissjóður svo sterkt umfram það sem áður var og heimilin eru þrátt fyrir allt miklu stöndugri en a.m.k. við hrunið 2008.