148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:37]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Margt má um fjármálaáætlunina segja, en ég ætla að leyfa mér að gera hér að umræðuefni forgangsröðun eins og hún birtist í meginlínum þessarar áætlunar. Það kemur auðvitað misjafnlega á óvart stuðningur einstakra flokka sem að ríkisstjórninni standa við þá forgangsröðun sem þar birtist. En ég verð að leyfa mér að segja að það kemur afar mikið á óvart, svo ekki sé meira sagt, að flokkur hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur geti staðið að þeirri forgangsröðun sem birtist m.a. í því að tekjuskattur skuli lækkaður á þann veg að það nýtist ekki hinum tekjulægstu og þeim sem standa hér höllustum fæti annars vegar og svo hitt að það skuli eiga að slá af bankaskattinum, ekki 10, 20%, ekki 30, 40, 50%, heldur meira en 60%. Hvernig má það vera að flokkur sem að mörgu leyti á virðulega fortíð og tengsl við íslenska verkalýðshreyfingu, sumir af mikilhæfustu verkalýðsleiðtogum 20. aldar sátu á Alþingi sem fulltrúar þess flokks sem kannski einna helst er forveri flokks hv. þingmanns, Alþýðubandalagið, hvernig getur hv. þingmaður varið það að ekki skuli notað það tækifæri, fyrst talið er óhætt að lækka neðra þrep tekjuskatts um 1%, að það skuli ekki vera nýtt í gegnum persónuafsláttinn til að rétta hlut þeirra sem standa höllustum fæti, aldraðra, öryrkja, tekjulágra fjölskyldna og einstaklinga, barnafólksins? Hvernig getur hv. þingmaður forsvarað það að skattalækkun skuli vera (Forseti hringir.) upp á ríflega 60% í þágu þeirra sem standa fjármagnsmegin í tilverunni?