148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:43]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það má vel vera að ég sé svona óskaplega trúgjörn, en ég hef ekki verið það neitt sérstaklega, frekar verið skeptísk á eitt og annað. Við erum að reyna, og verðum að horfast í augu við það, að gera bankaumhverfið samkeppnishæfara. Það var líka mikið baulað og ýmis orð látin falla þegar bankakerfinu var bjargað eftir hrun. Þá töldu margir að það væri verið að laga hér til eingöngu fyrir fjármagnskerfið. En auðvitað vitum við að það þurfti að komast á fæturna til að geta starfað og til að samfélagið virkaði. Ég ætla mér að treysta því. Það er ekkert sem segir að við getum ekki breytt þessu síðar. Það er bara þannig.

Það hefur gengið þannig á í íslensku efnahagslífi að skattar hafa ýmist verið hækkaðir og lækkaðir. Við skulum ekki gleyma því. En við erum að missa fullt af fyrirtækjum til útlanda sem fá betri kjör og eru þar af leiðandi ekki í íslensku hagkerfi með fjármuni sína. Þetta gæti verið leið til þess að styðja við það. Ég tel líka að þetta geti verið leið til þess að styðja við að einhver hafi áhuga yfir höfuð (Forseti hringir.) á því að kaupa þannig að við getum minnkað eign ríkisins í kerfinu, til dæmis eins og Íslandsbanka.