148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:08]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni spurningu hans sem snýr að staðsetningu Landspítala og staðarvali. Það hefur verið lengi til umræðu og var m.a. tekið hér til sérstakrar umræðu fyrr í á þessu þingi.

Spurningin er þessi: Hvernig get ég réttlætt það? Það er búið að taka u.þ.b. tvo áratugi að komast að þessari niðurstöðu, alla vega í þrígang hefur niðurstaðan af slíkum greiningum orðið að best væri að halda áfram uppbyggingu við Hringbraut. Hv. þingmaður nefndi hér byggingarmagn og umferð. Allt þetta á að sjálfsögðu við, en líka þær byggingar sem þegar eru til staðar. Niðurstaðan hefur alltaf orðið sú saman og líka hér, bæði hjá fagaðilum og á hinum pólitíska vettvangi, þ.e. að halda áfram þessum fyrirhuguðu framkvæmdum við Hringbraut. Síðast samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu árið 2015, held ég, þess efnis að þessar framkvæmdir skyldu kláraðar, og voru allir á þeirri tillögu. Allur flokkur minn var á þeirri tillögu. Við lofuðum því og við það loforð viljum við standa. Það nær í raun og veru ekki lengra. Það er hins vegar ekki þannig að ekki megi ræða annað og ég held að það sé ekkert langt í að við þurfum að byggja annan spítala en þennan. Og af því að tækninni fleygir hratt fram þá byggjum við kannski öðruvísi spítala sem hugsaður er til að uppfylla aðrar þarfir.