148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:13]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil gera athugasemd við orðalag hjá hv. þingmanni, sem Alþingi samþykkti, þegar hann var að vísa í fjármálastefnuna. Ég segi nei, það voru ríkisstjórnarflokkarnir sem samþykktu þetta. Það sem samþykkt var á Alþingi gæti hafa verið kannski nákvæmara, en Alþingi samþykkti ekki fjármálastefnuna. Það eru í raun og veru ríkisstjórnarflokkarnir sjálfir sem setja fram þessa áætlun og samþykkja hana sjálfir, stjórnarandstaðan kom ekkert að því. En alla vega, þá að spurningunum.

Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir fór vel yfir það í ræðu sinni áðan hvað VG lagði inn í þessa fjármálaáætlun og þá vil ég spyrja í kjölfarið. Hver eru fingraför Framsóknar á þessari fjármálaáætlun? Hvað fékk hver flokkur mikið til úthlutunar í fjármálaáætluninni til ýmissa verkefna?

Svo að öðru sem ég spjallaði einnig um við hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur. Fjármálaáætlunin lítur einfaldlega út fyrir það að í henni sé verið að hækka útgjöld á meðan verið er að lækka tekjur. Vissulega eru tekjur, þeir tekjustofnar sem við erum nú þegar með, að hækka og þeim tekjum er varið til nýrra verkefna í raun og veru, en verið er að lækka tekjustofna á sama tíma. Ég vildi svona fá að fara yfir það með hv. þingmanni hvers konar efnahagsstjórn það er í raun og veru að hækka útgjöld á annan veg og í rauninni að veikja tekjuhliðina á hinn veginn.