148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:15]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni. Mér finnst ég hafa sagt það í ræðunni varðandi fyrstu spurninguna og orðalagið, að stefnan eða þingsályktunin sem fól í sér þessa stefnu hefði verið samþykkt á Alþingi, en látum það vera.

Fingraför Framsóknar, orðaði hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, spurninguna. Ég ætla bara að segja að mér hugnast mjög vel þessi ríkisfjármálaáætlun á margan hátt þegar kemur að Framsóknarmanninum í mér. Framsóknarflokkurinn er félagshyggjuflokkur og það er svo margt í þessari ríkisfjármálaáætlun og í stjórnarsáttmála sem mér hugnast mjög vel. Þetta er auðvitað sáttmáli þriggja flokka.

Ef við skoðum áætlunina, sem við erum að fjalla um, þá er verið að auka gífurlega til heilbrigðismála og verið er að auka til velferðarmála, það er verið að auka til menntamála. Við hlupum hér um allar koppagrundir með þann boðskap að við vildum leggja meira til þeirra mála og færa góðærið yfir til almennings í þeim málaflokkum, og það er verið að gera það mjög duglega. Þannig að félagshyggjumaðurinn í mér, hann fagnar. Og Framsóknarflokkurinn er ánægður með þessa ríkisfjármálaáætlun og þann sáttmála sem þessir þrír flokkar náðu saman um.

Varðandi tekjustofnana ætla ég að fá að koma inn á í seinna andsvari.