148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:20]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Ég veit að sem formanni fjárlaganefndar er honum umhugað um ríkisfjármálin og að vel sé á málum haldið í þeim efnum. Þegar fjármálastefna ríkisstjórnarinnar var til umræðu sat hann ásamt öðrum meðlimum fjárlaganefndar undir nokkuð skýrum aðvörunarorðum frá fjölmörgum málsmetandi aðilum, eins og fjármálaráði sjálfu, ýmsum hagsmunasamtökum í atvinnulífi, eins og Viðskiptaráði, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins og fleirum raunar, sem gagnrýndu öll á sama veg, að þær efnahagsforsendur sem hér væri lagt upp með væru í besta falli fullar af bjartsýni og væri mjög óvarlegt við slíkar kringumstæður að auka útgjöld jafn mikið og raun ber vitni í þessari fjármálaáætlun.

Þá vorum við ekki farin að sjá framan í það hversu gríðarleg útgjaldaaukning væri á ferðinni. Eins og fram hefur komið er verið að tala um 260 milljarða aukningu á fáeinum árum, 36% aukningu ríkisútgjalda. Sjálfan óraði mig ekki fyrir því að menn færu svo bratt fram í þessu. Í ljósi þessa var sagt að það þyrfti að huga að varfærninni, huga að því að við slíkar kringumstæður væri eðlilegt að gæta vel að sér, fara ekki fram úr sér og skila þá góðum afgangi á ríkissjóði á meðan efnahagsforsendur væru jafn óljósar og raun ber vitni.

Þess vegna hlýt ég að spyrja hv. þingmann: Hefur hann, þrátt fyrir öll þessi aðvörunarorð, trú á því að efnahagsforsendur þessarar fjármálaáætlunar gangi eftir?