148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:22]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni spurninguna sem er stóra spurningin ef þetta á allt saman að ganga upp. Í þessu plaggi er verið að horfast í augu við það að vissulega höfum við ekki annað en fyrirliggjandi spár til að horfa til. Ég hef trú á því að þær geti gengið eftir en ansi margt þarf að ganga upp.

Hv. þingmaður nefndi hér aðvörunarorð frá hagsmunaaðilum og vissulega bera hagsmunaaðilar sem tengjast vinnumarkaðnum ábyrgð, þótt þeir séu ekki einir um það, á því hvernig tekst til í kjarasamningum. Það er ein af stóru áskorununum, hvort þessar spár gangi eftir og þetta lendi mjúklega. Sagan er okkur ekki hliðholl eins og hv. þingmaður hefur gjarnan bent á, en ein af ástæðum þess birtist í texta á bls. 41 þar sem verið er að fjalla um fjármálareglur og gildi en þar segir, með leyfi forseta:

„Með skuldamarkmiðum sínum hafa síðustu þrjár ríkisstjórnir lagt sín lóð á vogarskálarnar til að lækka skuldir hins opinbera verulega í fjármálastefnum samkvæmt lögum um opinber fjármál.“

Þetta er hluti af því að okkur gæti tekist þetta. Það er svigrúm til að auka útgjöldin og menn hafa, a.m.k. sem snýr að þessum þætti, verið varfærnir og hv. þingmaður tilheyrði einni af þessum ríkisstjórnum.