148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:59]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að það kann vel að vera að þessir aukastafir eins og við tölum um í afkomu ríkissjóðs skipti á endanum ekki höfuðmáli. Það endurspeglar þá ákveðna vantrú á því að ríkisfjármálin hafi út af fyrir sig eitthvert hlutverk í hagstjórn. Það getur vel verið að við gætum bara aðhyllst þann skóla, þ.e. að ríkisfjármálin eigi ekkert að vera að reyna að stýra hagkerfinu, við eigum ekki að vera í einhverri keynesískri hagfræði um að auka ríkisútgjöld á tímum samdráttar og halda að okkur á tímum uppgangs.

En það er kannski það sem er verið að gera hér engu að síður. Það er verið að eyða því svigrúmi sem væri þá mögulegt fyrir aukningu ríkisútgjalda í samdrætti, því það er alveg ljóst að tekjustofnarnir gefa verulega eftir þegar hagkerfið gefur eftir. Það má ekki heldur gleyma því. Við vitum þátt virðisauka, tekjuskatts lögaðila, tekjuskatts heimilanna í tekjuöflun ríkissjóðs. Þetta dregst allt mjög skyndilega saman þegar kólnar í hagkerfinu. Það þýðir auðvitað að tekjur ríkissjóðs rýrna verulega og ríkissjóður ræður þá ekki við þau útgjöld sem hér er verið að lofa. Það er kannski grunnvandinn.

Ef við ætlum að stýra ríkissjóði þannig að hann sé hlutlaus á hagsveifluna, að það sé ekki verið að reyna að örva eða dempa hagkerfið með ríkisfjármálunum heldur bara að halda þeim stöðugum, þá þurfum við líka að halda þeim stöðugum þannig að þau séu sjálfbær, þannig að það sé viðvarandi, þó óverulegur sé, afgangur af ríkisfjármálunum hvort heldur sem er í uppsveiflu eða niðursveiflu. Það er ekki að gerast hér.

Það er alveg ljóst að ef jafnvel sviðsmyndir hinnar mýkstu lendingar sem við höfum upplifað hingað til ganga eftir hér á næstu árum þá munum við ekki greiða niður skuldir, við munum auka þær. Við munum auka skuldir ríkissjóðs um 50, 100, 150 milljarða hæglega. Hér er því ekki verið að búa í haginn fyrir niðursveifluna. Hér er þvert á móti (Forseti hringir.) verið að eyða því fé sem fyrirfinnst á hápunkti hagsveiflunnar.