148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:12]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvar hans. Ég er honum bara algjörlega ósammála. Ég held að ég megi alveg vera það. Ég rakti fyrst og fremst í ræðu minni að við höldum á því hvernig lendingu við náum. Ég var að rekja það hér hvað peningastefnunefnd Seðlabankans rakti í skýrslu sinni, sem kom út fyrir nokkrum vikum, þar sem hún fjallaði um þessa hagvísa. Það er á þeim hagvísum og þeim spám sem við erum að byggja þessa fjármálaáætlun til lengri tíma. Við gerum það og það eru engin vúdúfræði á bak við það. Ég mótmæli því líka að við séum að veikja tekjugrunninn. Við höfum þvert á móti, vegna þess að við höfum skapað hér skilyrði fyrir kröftugt efnahagslíf, aukið tekjur ríkisins gríðarlega mikið. Ég get ekki tekið undir það að á einhvern hátt sé verið að afsala ríkissjóði tekjum þegar við höfum, svo að dæmi sé tekið, á stuttum tíma aukið tekjur af tekjuskatti einstaklinga um 40%. Hvenær má segja að við veikjum tekjustofna þegar þetta er vitnisburðurinn?