148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:58]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sá kokteill sem er verið að hræra í með þessari fjármálaáætlun og hefur reyndar verið hrært í undanfarið, frá árinu 2013, er eitraður. Það er eitraður kokteill að í uppsveiflu séu skattar lækkaðir og útgjöld aukin. Þetta stendur skýrum stöfum í gagnrýni fjármálaráðs, bæði núna og í fyrra. Og við sem erum eldri en tvævetra höfum upplifað þennan eitraða kokteil á okkar eigin skinni. Þetta mun kannski fleyta ríkisstjórn út kjörtímabil en lokaniðurstaðan mun koma niður á kjörum almennings. Það er það sem við höfum verið að reyna að benda á, bæði við í Samfylkingunni og fleiri, að þetta dæmi gengur ekki upp. Við upplifðum það hér í þessum þingsal í dag að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra talaði um að staðan á Íslandi væri þannig að ekki væri hægt að hækka lágmarkslífeyri. Hann yrði að vera 240 þús. kr. Staðan væri þannig á ríkissjóði. Það væri ekki heldur hægt að mæta ljósmæðrum og þeirra kjarakröfum því að staða ríkissjóðs væri þannig. En síðan er í fjármálaáætluninni víða talað um þetta stórkostlega góðæri og þann mikla árangur sem náðst hefur á undanförnum árum og þess vegna sé svo sniðugt að lækka skatta. En það verði að fara í útgjöld til að bæta innviðina vegna þess að þeir séu allir að grotna niður. Það eru margar mótsagnir í þessu, frú forseti.