148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í máli þingmanna og ráðherra í ræðustól Alþingis að fjármála- og efnahagsráðherra segir að það komi til með að verða allt í lagi að reka ríkissjóð í halla. Hann sagði það hér í andsvari fyrr í kvöld. Hv. þm. Haraldur Benediktsson, eftir því sem mér best skildist, sagði að þennan kokteil, að hækka útgjöld og lækka skatta, mætti skilja sem innspýtingu í kólnandi hagkerfi. Formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Willum Þór Þórsson, sagði að útgjaldaaukningin væri hógvær/hófleg, ef ég skildi hann rétt í andsvari áðan á meðan hæstv. forsætisráðherra segir að útgjaldaaukningin og það sem lagt er til þeirra verkefna sem eru í fjármálaáætlun sé betra en nokkur flokkur talaði um í kosningabaráttunni. Ég átta mig ekki alveg á þessum mismunandi skilaboðum sem ég fæ, er að reyna að púsla þeim saman. Vonandi kemur betur í ljós í umræðunni og umfjöllun nefndarinnar og í síðari umr. hvað við erum nákvæmlega með í höndunum. Því ég fer enn þá inn á þetta vandamál sem ég sé ekki að sé sjálfbært, þ.e. hækkun útgjalda og veiking tekjustofna. Ég held að þetta sé eitthvað sem við þurfum í alvörunni að taka á í kjölfarið og skoða í nefndinni. Ég hlakka til að fá umsögn fjármálaráðs hvað þetta varðar. Ef svo kemur upp að þetta séu, það sem mig grunar, mjög alvarleg mistök í hagstjórn, að leggja í þetta, held ég að Alþingi þurfi einfaldlega að gera breytingar.