148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, vissulega hef ég rekist á nokkra, en í þessari yfirferð núna hjá mér punktaði ég niður athugasemdir og hafði ekki einu sinni tíma til að fara yfir þær allar. Ég punktaði ekki niður nákvæmlega hvar viðbrögðin voru: Hei, þetta lítur vel út. Ég hugsaði um það þegar ég fór yfir þetta hvort ég ætti ekki að minnast á það en sagði við sjálfan mig: Nei, ég er í aðhalds- og eftirlitshlutverkinu. Það sem ég minnist ekki á er því að vissu leyti hrós. Að ná að fletta því upp og finna punktana mína akkúrat núna í andsvarinu er dálítið erfitt.

En það voru nokkur atriði þar sem mælikvarðarnir voru mjög góðir og þar sem ekki var mikið aukafjármagn miðað við verkefnin en samt aukin skilvirkni miðað við mælikvarðana. Þar virtist það alla vega eiga að skila einhverjum ábata. En þetta er mjög góð ábending. Við höfum verið að glíma við það undanfarið í fjárlögum að þar er ákveðin aðhaldskrafa, 2%, sem allir eiga að fylgja en í velflestum tilvikum er það bara afgreitt með því að útgjaldasvigrúmið er ekki notað. Það dekkar þessa 2% aðhaldskröfu sem er gerð á málefnasviðið og alla málaflokkana. Á sumum stöðum var það gert þannig að útgjaldasvigrúmið dekkaði aðhaldskröfuna og svo var forgangsraðað innan ramma til að kreista út einhverjar 250 milljónir í hugbúnaðarverkefni. Kannski mjög góð verkefni en það hefði að sjálfsögðu átt að finna aðhaldið fyrst og nýta þessar 250 milljónir í útgjaldasvigrúmið á móti. Það er margt sem við erum að læra hérna. Það væri mjög gott að fá betra yfirlit yfir aðhaldsáætlanir ef það á að vera 2% aðhaldskrafa.