148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:42]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég rak einmitt augun í að samkvæmt greiningu ASÍ á aukinni skattbyrði lágtekjufólks sem spannar um 20 ár hefur persónuafslátturinn ekki haldið í við þróun o.s.frv. Ef ég ber það saman við prósentulækkun á tekjuskatti sem fer jafnt yfir alla en ekki krónutölu, jafnt hlutfallslega yfir alla en misjafnt krónutölulega séð, verður þessi skekkja sem greining ASÍ sýnir enn þá meiri. Í rauninni eykur það skattbyrði lágtekjufólks miðað við fólk með hærri tekjur, þegar maður fer yfir í krónurnar. Þessir 14 milljarðar, ef sú tala er nákvæm, sem fara í lækkun á tekjuskatti myndu duga fyrir væntanlega svona 14 þús. kr. hækkun á persónuafslætti. Það væri kannski betri aðgerð og færi í áttina að því að jafna þetta misvægi sem ASÍ greindi.

Ef við tækjum skrefið lengra og færum í útfærslu þar sem persónuafslátturinn er stiglækkandi gætum við jafnvel náð enn þá betri jöfnun. En þetta er það sem mér finnst vanta í umræðuna og stefnumótunina sem slíka. Við erum með prósentuskattkerfi, ekki flatan skatt eða krónutöluskatt nema nefskatt. Hvert er eðlilegt hlutfall skattbyrði á milli tekjuhópa? Hver er stefnan? Hvert eigum við að fara? Við erum greinilega að fara í áttina að því að leggja aukna skattbyrði á lágtekjufólk. Er það í alvörunni stefnan sem við ætlum að halda áfram með eða ekki? Það er eitthvað sem ætti að vera svarað í heildarstefnu stjórnvalda hverju sinni, á málefnasviðunum sem við eiga, en vantar algerlega.