148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:04]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur nú lagt fram fjármálaáætlun sína, reyndar heldur seinna en lög bjóða. Ekki tókst nú betur til en að innkalla þurfti hana til endurprentunar. Það er því óhætt að segja að ríkisstjórninni séu mislagðar hendur í þessum efnum. En hvað um það.

Nú liggur áætlunin fyrir. Hún er pólitískt stefnuplagg og slær tóninn um framhaldið. Eins og gefur að skilja er hún umfangsmikil, eða tæpar 400 blaðsíður og útilokað að fjalla um hana með tæmandi hætti hér við þessa umræðu.

Herra forseti. Ríkisstjórnin tók við völdum í lok nóvember á síðasta ári og starfar á grundvelli sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis. Í þessum sáttmála er að finna fyrirætlanir og loforð ríkisstjórnarinnar. Það er því rétt að byrja þar þegar mat er lagt á hvernig fjármálaáætlunin rímar við sáttmálann.

Eitt af því sem maður tekur eftir við lestur sáttmálans er að þar er mikið talað um nýsköpun og framtíðina. Það er gott því að nýsköpun, tækni og menntun er forsenda framfara og þess að vel takist til við að byggja upp gott samfélag til framtíðar og skapa skilyrði fyrir fjölbreytt atvinnulíf sem verður eftirsóknarvert fyrir ungt fólk. Þess vegna fagnaði ég þessari áherslu.

Það er margt sagt um nýsköpun í sáttmálanum. Þar má nefna að á fyrri hluta kjörtímabilsins á að setja á fót þverpólitíska hópa í samráði við viðkomandi fagráðherra, m.a. um nýsköpunarstefnu, þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði, auk framtíðarnefndar um áskoranir og tækifæri vegna tæknibreytinga. Enn hafa þessar nefndir ekki verið settar af stað. Ekki verður séð að eftir neinu sé að bíða því að verkefnin eru ágæt og nota ég því tækifærið hér og auglýsi eftir að þetta starf verði sett af stað.

Í stjórnarsáttmálanum skiptir ríkisstjórnin verkefnum sínum í sjö meginflokka sem hverjir eiga að styðja aðra. Einn af þessum flokkum er einmitt nýsköpun og þróun. Áfram skal vitnað til sáttmálans. Það á að efla nýsköpun í heilbrigðismálum þannig að Ísland verði í fremstu röð og nýti sér nýjustu tækni á þessu sviði. Það á að efna nýsköpun og þróun á öllum skólastigum, enda er menntun kjarninn í nýsköpun til framtíðar. Það á að leggja áherslu á aukna tækniþekkingu sem mun gera íslenskt samfélag samkeppnishæfara á alþjóðavísu. Iðn- og verknám á að efla. Það á að nýta öll tækifæri sem felast í sífellt örari tæknibreytingum. Það á að hvetja til nýsköpunar á öllum sviðum, m.a. hjá hinu opinbera og í rótgrónum greinum. Það á að stofna þjóðarsjóð utan um arð af auðlindum landsins og það á að byrja á orkuauðlindinni. Það á að nota þennan sjóð í ýmislegt, m.a. að mæta fjárhagslegum áföllum, en afmarkaður hluti ráðstöfunarfjár sjóðsins verði notaður til þess að efla nýsköpun og styðja við vöxt og þroska sprotafyrirtækja. Með því verði fræjum sáð til eflingar nýrra vel launaðra starfa í framtíðinni. Þetta er mjög gott.

Það á að efla nýsköpun og vöruþróun í landbúnaði og það á að gera allt hið sama í sjávarútvegi og það á að styðja myndarlega við rannsóknir í ferðaþjónustunni. Síðan á náttúrlega, undir kaflanum um nýsköpunina, að nýta hugvitið og styðja við væntanlegar þjóðfélagsbreytingar. Það á að vinna hér mörg góð verkefni. Þetta er allt saman alveg ægilega fínt. Ég er mjög ánægður með þetta allt saman.

Það á að skoða starfsemi Nýsköpunarsjóðs. Að vísu kom fram í svari við fyrirspurn minni til nýsköpunarráðherra að það er enn verið að bíða eftir skýrslu um hana sem reyndar átti að koma í mars en hefur ekki verið kynnt enn. En hvað um það.

Þetta er orðin nokkuð löng og góð upptalning á fögrum áformum um svokallaða stórsókn, svo gripið sé til orðalags sem leikur mörgum hæstv. ráðherrum á tungu þegar þeir ræða um það sem fram undan er á flestum sviðum þjóðlífsins. Það yrði því óneitanlega spennandi að sjá þetta allt saman raungerast í fjármálaáætluninni sem maður er loksins kominn með til skoðunar.

Herra forseti. Mér eru einmitt nýsköpunarmál sérlega hugleikin og lét ég það því verða mitt fyrsta verk að lesa fjármálaáætlunina með nýsköpunargleraugun mín á nefinu. Til þess að flýta fyrir mér að finna allt þetta um nýsköpunina í þessum stóra gula doðranti nýtti ég mér að sjálfsögðu orðaleit og sló upp orðinu nýsköpun. Viti menn, það kemur hvorki meira né minna en 160 sinnum fyrir í þessari ágætu fjármálaáætlun. Mér létti strax. Greinilegt var að hér ætti nú aldeilis að ganga vasklega til verks.

Í sáttmála stjórnarinnar er fjallað um stofnun þjóðarsjóðs eins fram kom fyrr í máli mínu. Það kom mér því frekar í opna skjöldu að ekki virðist gert ráð fyrir því með ákveðnum hætti í fjármálaáætlun að hann verði yfirleitt til. Um hann segir í kafla 2.3 Efnahagsleg viðfangsefni, með leyfi forseta:

„Áfram er þó gætt að niðurgreiðslu skulda … Einnig er fyrirhuguð stofnun Þjóðarsjóðs, sem ætlunin er að fjármagna með auknum arðgreiðslum frá Landsvirkjun, og er honum ætlað að safna upp og ávaxta fé til að milda veruleg fjárhagsleg áföll á ríkissjóð sem til eru komin vegna ófyrirséðra atburða.“

Engin nýsköpun þarna. Fjárhagsleg áföll.

Í kaflanum um stefnumið og helstu niðurstöður ríkisfjármálaáætlunar stendur:

„Haldið verður áfram í þeirri vegferð að auka sjálfbærni ríkisfjármála … auk þess sem hugað verður að uppbyggingu Þjóðarsjóðs til að mæta ófyrirséðum áföllum sem fjármagnaður verður með reglulegum arðgreiðslum félaga í ríkiseigu.“

Ekki orð um nýsköpun.

Þetta er dálítið sérkennilegt miðað við það sem maður les í stjórnarsáttmálanum. Ég ætla að vitna til þeirra orða:

„Afmarkaður hluti ráðstöfunarfjár sjóðsins verður notaður til að efla nýsköpun og styðja við vöxt og þroska sprotafyrirtækja. Með því verður fræjum sáð til eflingar nýrra vel launaðra starfa í framtíðinni.“

Herra forseti. Þegar litið er til útgjaldaramma málefnasviða er fróðlegt að bera saman það sem sagði um málefnasvið 7, Rannsóknir, nýsköpun og þekkingargreinar, eins og kaflinn heitir, í fjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar og þessarar nýju. Á því fimm ára tímabili sem er undir í báðum áætlunum, með auðvitað árshliðrun, var gert ráð fyrir tæpum 69 milljörðum í hinni fyrri, en 72,3 í hinni nýrri. Þetta eru um 3,5 milljarðar eða um 5% hækkun.

Ég spyr mig nú: Er þetta dæmi um stórsókn eða stórhug á þessu sviði frá því sem áður var? Gerir þetta mikið meira en að halda sennilega í við verðlagsþróun yfir tímabilið?

Herra forseti. Það er óneitanlega fróðlegt að horfa á aðra þætti útgjaldaramma í fjármálaáætluninni til samanburðar við þessa stórsókn í nýsköpun og eflingu þekkingargreina í landinu. Þar verður mér sérstaklega litið til liðar 12 í útgjaldarammanum sem fjallar um framlög til landbúnaðar. Til landbúnaðarins á þessu sama tímabili eiga að renna rúmir 78 milljarðar. Það er um 6 milljörðum hærra framlag en menn ætla sér til þess að efla nýsköpun og þekkingargreinar í landinu. Mér þykir þetta satt að segja harla athyglisvert.

Ég lýk máli mínu á að spyrja hvort þetta sé dæmi um framtíðarsýn og stórsókn á sviði nýsköpunar og þekkingargreina í augum hæstv. ríkisstjórnar. Mér þykir þetta harla rýrt í roðinu miðað við þá gríðarlegu áherslu á nýsköpun í stjórnarsáttmálanum sem ég held að við höfum öll verið ánægð með. Nú ætti aldeilis að taka sér tak á þessu mikilvæga sviði sem undirbýr okkur undir framtíðina. En nei, það er ekki gert. Það er eins með aðrar stórsóknir hæstv. ríkisstjórnar, þær eru satt að segja í besta falli kyrrstaða og nánast hægt að tala um að menn séu að hörfa í stað þess að sækja fram.