148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:50]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég ætla að ræða aðeins áfram um streitu og geðheilbrigðismál, af því að ég sé að það er rauði þráðurinn í gegnum allan velferðarmálaflokkinn.

Í kafla um vinnumarkað og atvinnuleysi er talað um að meðal helstu áskorana sé að áfram fjölgar þeim einstaklingum sem fá greiddan örorkulífeyri. Einstaklingum sem metnir hafa verið með 75% örorku hefur fjölgað árlega og var aukningin milli áranna 2016 og 2017 um 3,9%. Niðurstöðurnar þykja mér benda til þess að árangur starfs endurhæfingar og virkra vinnumarkaðsaðgerða sé ekki nægjanlegur. Einnig kemur fram að mikilvægt sé að finna orsakir þessarar þróunar í fjölda þeirra sem fá örorkumat þar sem þar virðist gæta áhrifa samspils getu og krafna í starfi og persónulegra skyldna frekar en fjölgun fólks með tiltekna sjúkdóma eða sjúkdómsástand.

Þegar fjallað erum lausnir á þessum áskorunum er rætt um áhættumat, fundi með stjórnendum og aukið eftirlit. Forseti. Það þykir mér furðuleg nálgun. Vandamálið er risastórt og krefst því risavaxinna aðgerða. Það þarf að valdefla einstaklinga til að geta valið vinnu sem hentar og auðgar líf þeirra og tryggja aukinn tíma fólks með fjölskyldu og ástvinum og til að sinna áhugamálum. Þegar vandamálið er að fólk er að þræla sér út í vinnu og nær varla endum saman eru lausnir á borð við fleiri eftirlitsmenn vandræðalega lítil betrumbót. Hvers vegna var t.d. ekki skoðað að stytta vinnuvikuna?

Svo vil ég nefna að mér finnst varhugavert í kafla um aldraða hversu mikil áhersla er lögð á að auka atvinnuþátttöku aldraðra. Það er hópur sem búinn er að slíta sér út í vinnu alla ævi og á rétt á því að slappa aðeins af og njóta þessara fáu ára sem þau eiga eftir. Það getur vel verið að sumir séu í þeirri stöðu að hafa gaman af því að vinna áfram og þá er fínt að sá hópur hafi val en hinir sem eru búnir að fá sig fullsadda af vinnumarkaðnum þurfa einnig að hafa val á því að hætta. Til að hafa raunverulegt val til að hætta að vinna verður maður líka að hafa efni á því. Ríkisstjórninni ber að tryggja að aldraðir hafi þetta frjálsa val því að ef fátækt neyðir aldraða til að halda áfram að slíta sér út á vinnumarkaði er það ekki mikið val.