148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:09]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Gott að heyra að það eigi að ræða um aðkomu Alþingis að þessu varðandi breytingar á lögum og svoleiðis, það er allt of seinvirkt. Það sem ég kalla eftir er að við getum bara, eins og fólk sem hefur áhuga á að bæta þessa hluti, átt samtalið fyrr þannig að þegar ég fer í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og í forsætisnefnd eigum við raunverulega málefnalegt samtal um hvernig er hægt að laga þessa hluti, ekki að þá sé sagt: Já, það er ekki hægt, það er búið að setja ramma í fjármálaáætlun utan um hlutina.

Núna erum við með fjármálaáætlun, en er þá kannski búið að semja of mikið fyrir fram þannig að ekki sé hægt að breyta því? Þetta er vandinn. Ég vil vita hvar ég stend hvað þetta varðar af því að mitt starf er svolítið eins og vatnið, ég kem að einhverri mótstöðu og þá rís vatnið og finnur sér alltaf einhverjar leiðir. Nú er ég t.d. búinn að kæra kjararáð af því að annað virkaði ekki í þinginu og það mál verður tekið fyrir 20. apríl, launahækkanir þingmanna. Ég mun alltaf finna mér leiðir.

Það væri æðislegt ef forsætisráðherra hefði raunverulegan áhuga á því að tala við sitt fólk, að við gætum átt samtal um eflingu Alþingis og virkjað eftirlitshlutverkið og löggjafarhlutverkið sem við höfum hérna, að við gætum átt það samtal fyrir fram og meðan á því stæði þannig að við fyndum lausnir. Þegar kemur að þessu er engin pólitík í mér. Við erum öll sammála um að þetta virka hlutverk eigi að vera til staðar. Það sem ég vil ekki gera er að lenda inni í nefnd og þurfa að eiga samtal við aðra nefndarmenn sem eru búnir að fá skipanir eða halda a.m.k. að þeir séu með einhvers konar skipanir um að þeir eigi ekki að fara að hreyfa hluti o.s.frv. Þarf ég að ræða í gegnum þá til að koma og ræða við hæstv. forsætisráðherra eða get ég átt beint samtal? Ég lendi í forsætisnefnd og þá er sagt: Það er kannski ekki gott að kalla inn varamenn af því að ekki eru til peningar. Það er þetta sem við erum að lenda í. Það er sagt að ekki sé gott að vera með of margar fyrirspurnir, það (Forseti hringir.) kosti svo mikið. Það gengur ekki að segja okkur að við getum ekki sinnt hlutverki okkar af því að ekki eru til peningar. Ég vil ekki láta ramma okkur inn, ég vil geta átt samtalið.