148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Mín skoðun er sú að forsætisnefnd Alþingis eigi að gera sínar tillögur og auðvitað er best ef menn í forsætisnefnd Alþingis ná saman um það hvernig forsætisnefnd Alþingis, fyrir hönd okkar hinna sem hér sitjum sem þingmenn, vill sjá eflingu Alþingis fyrir komið í til að mynda fjármálaáætlun þegar kemur að því að kalla inn varamenn eða annað sem kostar Alþingi. Ég hef til að mynda oft velt því upp, hvort sem ég er í stjórnarandstöðu eða ríkisstjórn, þegar Alþingi kallar eftir skýrslu frá framkvæmdarvaldinu hvort Alþingi ætti ekki að ákveða sjálft að gera skýrslu og ráða sérfræðing í að gera skýrslu um eitthvað sem Alþingi vill sjálft setja á dagskrá. Það þekkjum við úr þjóðþingum í kringum okkur, kannski meira frá tilteknum þingnefndum. Mig minnir að í breska þinginu segi utanríkismálanefndin þar: Við ætlum að setja þessi mál á dagskrá, við spyrjum ekki ráðherrann um hans mál sem hann gerir auðvitað líka grein fyrir í sínum skýrslum, heldur ákveður utanríkismálanefnd að hún ætli sérstaklega að horfa á eitthvað tiltekið og hefur þá svigrúm til þess í fjárlögum hvers ár að fara í slík verkefni.

Ef Alþingi er sammála um það held ég að það sé hægur vandi fyrir Alþingi að ákveða það hreinlega. Mér finnst eiginlega hv. þingmaður vera að spyrja hvort við höfum sem þing svigrúm til að breyta fjármálaáætlun þegar kemur að störfum Alþingis. Að sjálfsögðu. Mér finnst Alþingi þurfa að taka svolítið þessa umræðu hjá sér um á hvað við viljum leggja áherslu. Viljum við leggja áherslu á það að nefndirnar fari í einhverja aukna sjálfstæða vinnu?

Hér samþykkjum við yfirleitt skýrslubeiðnir. Framkvæmdarvaldið skilar skýrslum. Erum við ánægð með það vinnulag? Stundum er þörf á því af því að það er verið að spyrja sérstaklega út í einhverjar gjörðir og eitthvað sem er á ábyrgð framkvæmdarvaldsins, en myndum við ekki vilja líka að þingnefnd gæti bara sagt: Heyrðu, við ætlum að fá þennan og hann ætlar að vinna fyrir okkur í sex mánuði að því (Forseti hringir.) að gera þetta?