148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:16]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni sem spyr eiginlega um stóru áherslurnar, hvað sé jafnvel það mikilvægasta. Það er auðvitað alltaf mjög erfitt að svara slíkum spurningum, en þó vil ég segja eins og ég kom að í minni ræðu að heilbrigðismálin hafa verið forgangsmál kjósenda og flestra flokka á Alþingi undanfarin ár. Ég held að á engan sé hallað þegar ég segi að heilbrigðismálin séu fyrirferðarmest þegar kemur að rekstrarútgjöldum hins opinbera. Þar með er hins vegar ekki sagt að heilbrigðismálin verði leyst eingöngu með auknum fjármunum.

Ég nefndi það áðan að það væru ákveðnar pólitískar áherslur sem kæmu fram í áætluninni hvað varðaði sérstaklega kostnaðarþátttöku sjúklinga. Ég vil þá nota tækifærið og nefna málaflokka sem hafa verið mjög áberandi í umræðunni, þ.e. stöðu heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar í heilbrigðiskerfinu og geðheilbrigðismálin og að tekið sé á þeim víðar í okkar heilbrigðiskerfi en gert er. Ég held að það sé alveg gríðarlega mikilvægt að við ljúkum vinnu við heilbrigðisstefnu. Við erum búin að tala oft um það hér á þingi, allir flokkar, að það þurfi að setja niður stefnu þannig að við forgangsröðum fjármunum rétt því að það er auðvitað þannig með þennan málaflokk að þar er hægt að bæta ansi lengi við. Við þurfum að hafa mjög skýra sýn á það að við séum að forgangsraða fjármunum með réttum hætti.

Síðan vil ég segja, af því að hv. þingmaður nefndi rannsóknir og annað, að hér er horft til þess að bæta í háskólastigið sem ég tel mjög mikilvægt. Við höfum verið á eftir öðrum OECD-þjóðum til að mynda. Ég vonast til þess að við getum núna átt samstarf við OECD á næsta ári um að meta í raun og veru þessi fjárframlög til háskólastigsins samanborið við meðaltal OECD-ríkja og hvort við séum með sambærilegar tölur að öllu leyti, því að þar skortir gögn. En síðan, og ég fæ kannski að koma að því í síðara andsvari, er það nýsköpunin og framtíðarsýnin í þeim málum sem ég held að skipti mjög miklu máli fyrir samfélagið.