148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:18]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra svörin. Ég er sammála henni um mikilvægi heilbrigðismála. En ég vil sérstaklega gera samgöngu- og fjarskiptamál að umræðuefni mínu hér í seinni ræðunni.

Í stjórnarsáttmálanum er skýrt kveðið á um hvaða uppbyggingu þurfi í vegamálum og öðrum samgönguinnviðum, bæði með nýframkvæmdum og viðhaldi. Við vitum að vegakerfið er grundvöllur að búsetu og öflugu atvinnulífi um allt land. Ef ekkert er vegakerfið verður stöðnun en ekki þróun, einangrun en ekki hreyfing. Það er því ánægjulegt að sjá að verið er að spýta verulega í og áætlunin sýnir að hægt er að fara í brýnar vegaframkvæmdir sem setið hafa á hakanum. Má þar nefna tvöföldun Suðurlandsvegar, Vesturlandsvegar um Kjalarnes, klára tvöföldun Reykjanesbrautar, Dýrafjarðargöng, veg um Borgarfjörð eystri og klára Dettifossveg, svo fátt eitt sé nefnt.

Þá vil ég fagna því að verkefninu Ísland ljóstengt er fylgt eftir og í því er góður gangur. Því til staðfestingar má benda á viðurkenningu Alþjóðafjarskiptasambandsins fyrir góðan árangur í fjarskiptum. Verðlaunin eru staðfesting á því að við erum á réttri leið og skipum okkur í hóp fyrirmyndarsamfélaga sem hafa trausta og góða innviði þar sem menntun og aðgengi að netinu eru einn af hornsteinunum.

Hæstv. forseti. Ég tel mikilvægt að halda þessu til haga því að við erum vissulega á réttri leið við að byggja upp sterkt samfélag um allt land. Merki um það er fjölgun íbúa á landsbyggðinni í fyrsta sinn í langan tíma svo að þróunin virðist vera að snúast við. Ég tek undir með þeim sem telja þetta eitt öflugasta uppbyggingarverkefni seinni ára. Með góðum samgöngukerfi og öflugum fjarskiptum getum við í raun talað um jafnrétti til búsetu.

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um sýn hennar á framtíð sterkari byggða um land allt og hvaða leiðir hún sér til að tryggja áframhaldandi jákvæðan viðsnúning og hvernig megi fylgja honum eftir.