148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:52]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég ætla nú að byrja á að hughreysta hv. þingmann og segja honum að ég er bara í ágætu skapi. Hv. þingmaður verður að sætta sig við að því sé svarað þegar farið er með rangfærslur í ræðustól. Ég kannast ekki við að það sé gert af neinum pirringi enda finnst mér mjög gaman að eiga í þessari umræðu. Ég tel að þetta sé góð fjármálaáætlun sem við getum verið nokkuð ánægð með, sú ríkisstjórn sem nú situr, þó að ég hafi sagt í upphafi míns máls að það sé ekkert pólitískt plagg sem leysi öll vandamál mannlífsins. Það er ekki þannig.

Þegar hv. þingmaður kemur hér upp og talar um kampavínsríkisstjórn og vogunarsjóðina finnst mér ekki mikið inntak í þeirri umræðu. Og hv. þingmaður kemur hér upp og segir: Það er ekki svo að 6 milljarðarnir eigi að fara í kjarabætur fyrir öryrkja. Það kemur hér fram að þetta er tvískipt. Hv. þingmaður getur ekki leyft sér að saka mig um blekkingar þegar ég er búinn að segja ítrekað í þessari umræðu sem hv. þingmaður hefur setið undir að 4 milljarðar eru ætlaðir í kjarabætur en hluti af þessum 6 milljörðum er ætlaður til að mæta lýðfræðilegri þróun. Þetta hefur komið tvisvar fram í umræðunni. Og ég kann ekki við það, herra forseti, þegar hv. þingmaður sakar mig um blekkingar.

Hv. þingmaður kann að kalla það pirring að honum sé svarað og hans ágæta starfsbróður úr Miðflokknum en til þess erum við hér, ekki satt? Það er til að eiga skoðanaskipti, svara spurningum, en líka svara þeirri gagnrýni sem við teljum væntanlega ekki málefnalega eins og í því tilfelli.

Þegar kemur að bankaskattinum þá tók hv. þingmaður þátt í sem ráðherra í ríkisstjórn að hækka hann og boðaði að hann yrði tímabundinn. Því var lofað. Við munum öll eftir því þegar sú ríkisstjórn sem hv. þingmaður sat í boðaði að þetta væri til fjögurra ára, til þess gert að fjármagna skuldaleiðréttinguna sem ég nefndi áðan.

Ég velti því upp við hv. þingmann hvort það hafi verið mistök hjá þáverandi hæstv. ríkisstjórn (Forseti hringir.) að boða að þessi skattur yrði tímabundinn.