148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:56]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég er nú farin að hafa áhyggjur af því að hv. þingmaður sé eitthvað pirraður, jafnvel, af því að hlusta á hann hér í ræðustól. Ég velti fyrir mér hversu uppbyggileg þessi umræða er sem snýst öll um að koma með einhverja gildisdóma um skaplyndi samþingmanna sinna. Ég bara spyr, hv. þingmaður: Erum við á réttri leið í þessu?

Hv. þingmaður spyr hvort breytingar á persónuafslætti hafi verið slegnar út af borðinu. Ég hef margítrekað sagt hér — mér finnst svo sem ágætt ef umræðuefni í þessari fjármálaáætlun eru svo fá að ég er alltaf spurð sömu spurninganna, það bendir til þess að álitaefnin séu færri en hv. þingmenn hafa látið í skína — ég er margbúin að fara yfir það hér og það kemur fram í þeirri rammagrein sem ég fór yfir áðan í fjármálaáætluninni að þar er til skoðunar að horfa til þeirra hugmynda sem hafa verið uppi um hvort persónuafslátturinn geti orðið stigskiptur og við ákveðin mörk jafnvel orðið útgreiðanlegur en fari svo lækkandi eftir því sem tekjurnar hækka. Þar með næðum við þeim markmiðum sem við myndum vilja ná fram með jöfnunarhlutverki skattkerfisins og nýtum þá (Forseti hringir.) fjármuni sem við erum að áætla í skattalækkanir til þess að gera það með þessum hætti. (Forseti hringir.) En það liggur ekki fyrir ákvörðun. Þetta er ég búin að segja margoft og þetta er boðað í samráðinu sem er fram undan um breytingar á tekjuskattskerfinu.