148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:59]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu fyrirspurn. Þetta er eitt stærsta verkefnið sem ekki bara við stöndum frammi fyrir sem stjórnmálamenn í þessu landi heldur samfélagið allt sem og efnahagslífið. Það er ólga á vinnumarkaði. Um leið hafa stjórnvöld gripið til ákveðinna aðgerða. Það er búið að vera mjög mikið og virkt samtal við verkalýðshreyfinguna undanfarna mánuði. Ég vonast til þess að ASÍ taki sæti í þjóðhagsráði eins og stéttarfélög á opinbera markaðnum hafa ákveðið að gera. Þar verði rætt samhliða um efnahagslegan stöðugleika og félagslegan stöðugleika eins og hefur verið krafa verkalýðshreyfingarinnar.

Síðan eru ákveðnir þættir og úr því að hv. þingmaður horfir kannski sérstaklega til heilbrigðisstéttanna eins og ég skildi hann í sinni fyrirspurn — (JÞÓ: Stöndum frammi fyrir því núna.) Við stöndum frammi fyrir því núna, eins og hv. þingmaður segir. Það er búið að gefa ákveðna yfirlýsingu í tengslum við þá samninga sem voru gerðir við félög BHM fyrr á þessu ári um að ráðist verði í vinnu við að skoða sérstaklega starfsaðstæður heilbrigðisstarfsfólks en líka að fara í greiningu — heilbrigðisráðherra er hér næst til svara og getur þá farið nánar yfir þetta — á mannaflaþörfinni innan heilbrigðiskerfisins. Meðal þess sem hefur núna verið hvað mest knýjandi í kjaraviðræðum heilbrigðisstarfsmanna við samninganefnd ríkisins eru starfsaðstæðurnar, mönnunarvandinn og að horfa fram í tímann þar sem við sjáum fram á að staðan er mjög mismunandi milli ólíkra heilbrigðisstétta. Nú sjáum við hvort við stöndum undir þörfum kerfisins. Þessi vinna er að fara af stað.

Hvaða svigrúm er í þessari áætlun? Hv. þingmaður talar sérstaklega um heilbrigðisstéttirnar og ég nefndi hér að það er verið að forgangsraða heilbrigðiskerfinu sem hlýtur að vera til góða líka, ekki bara fyrir allt samfélagið heldur líka þá sem vinna innan þess kerfis. Hv. þingmenn hafa verið að spyrja um kvennastéttirnar sérstaklega og þær eru auðvitað mjög stórar innan heilbrigðiskerfisins. Við þurfum að horfa á það í því samhengi að með því að bæta starfsaðstæður og umgjörð heilbrigðiskerfisins horfum við líka til þess að við bætum þar með kjör þeirra kvennastétta sem þar vinna.

Ég kem kannski nánar (Forseti hringir.) að vinnumarkaðnum í mínu síðara svari.