148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:02]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Rétt eins og þegar ég ræddi áðan um eftirlitsstörf þingsins sem ég hef ákveðinni skyldu til að sinna vegna setu minnar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd annars vegar og forsætisnefnd hins vegar vil ég núna ekki láta ramma mig inn af þessari fjármálaáætlun á þann veg að ég geti ekki sinnt starfi mínu. Eitt mikilvægasta verkið sem hæstv. forsætisráðherra hefur um þessar mundir er að skapa sátt á vinnumarkaði. Þess vegna vil ég gefa forsætisráðherra tækifæri til að við fáum svör um að þessi fjármálaáætlun rammi okkur ekki þannig inn að við getum ekki brugðist við víðtækum deilum á vinnumarkaði, að ekki sé seinna hægt að segja: Já, nei, það er ekki hægt að gera þetta því að það var eitthvað samið og svo er komin fjármálaáætlun og fjárlög o.s.frv., nei, nei, það er ekkert hægt að gera í þessum málum, það er ekki svigrúm.

Svigrúmið verður að vera til staðar. Ég ætla ekki að standa hérna uppi ef það á að setja lög á verkföll á þessu ári, næsta ári eða inn í þessa framtíð sem við stöndum frammi fyrir og láta segja við mig: Það voru samþykkt einhver fjárlög á Alþingi og (Forseti hringir.) fjármálaáætlun sem rammar þetta inn og setur okkur í spennitreyju.

Það verður að vera til svigrúm.