148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:32]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir afbragðsgóð svör. Við stöndum frammi fyrir mörgum mikilvægum áskorunum á allra næstu árum. Það er ágreiningslaust. Ég held að þróast hafi á Íslandi dálítið óheppileg pólitík, þ.e. þessi svokallaða stofnanavædda þjónusta. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á þá eru margar góðar úrlausnir til aðrar sem við sem erum að vaxa úr grasi og verða gömul munum ekki una óbreyttum.

Það sem mig langaði að árétta er þetta með breytta fjármögnun, að allar heilbrigðisstofnanir, þar með talin heilsugæslan í landinu, fái að búa við sama jafnræði og Heilsugæslan í Reykjavík og nú á þessu ári Landspítali. Ég vona að ráðherra sé því sammála, þessum áherslum sem ráðherra nefnir með vinnu við nýja heilbrigðisstefnu. Við höfum miklar væntingar um það. Það er ekki auðvelt verk. Það er mikil áskorun fyrir okkur öll.

Eins og ráðherra hefur nefnt verður ný heilbrigðisstefna að lifa af ríkisstjórnir og flokkspólitísk ágreiningsmál.

Ég spyr svolítið um tímasetningu á þessari vinnu, hvenær þess megi vænta og nefni líka það sem fram kom í tveggja ára gamalli skýrslu McKinseys varðandi það þegar menn fara að setja að nýju inn fé til eflingar heilbrigðisþjónustu, að það sé gert með markvissum hætti samkvæmt skilgreiningum. Við erum ekki komin það langt á veg, en það á samt að vera aukning í málaflokkinn. En ég spyr (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra: Verður það þá gert markvisst (Forseti hringir.) og samkvæmt nýrri heilbrigðisstefnu?