148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:34]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kemur þarna algjörlega að kjarna málsins. Það er auðvitað ekkert einfalt að segja að við þurfum að byggja upp skýrari sýn, markvissari ráðstöfun fjár o.s.frv. og ætla á sama tíma að gera betur við núverandi kerfi. En auðvitað sjáum við og höfum fengið það rökstutt, og hv. þingmaður þekkir það vel, að þörf sé fyrir aukið fé til reksturs í einstaka heilbrigðisstofnunum og Landspítalanum miðað við óbreyttar forsendur. Það gildir líka um Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Ég verð að segja það hér í þessu andsvari að ég held að það hljóti að verða svo, þegar ný heilbrigðisstefna liggur fyrir, að það muni hafa veruleg áhrif á næstu fjármálaáætlun, þ.e. með hvaða hætti það fjármagn sem fer í málaflokkinn raðast upp. Við höfum skýrslu frá Ríkisendurskoðun um að með samningum á vegum Sjúkratrygginga Íslands sé um að ræða ómarkviss kaup heilbrigðisþjónustu. En ekki er þar með sagt að fólk þurfi ekki heilbrigðisþjónustu, það þarf þá kannski bara að vera markvisst nákvæmlega í hvaða átt það fjármagn á að fara. Við þurfum að vera óhrædd við að taka þá umræðu líka. Ef við bara opnum kranann og höldum áfram að taka fjármagn út úr ríkissjóði þá er ekkert víst að við séum að vinna á göllum kerfisins eins og það er nákvæmlega núna.

Hv. þingmaður spyr aðeins um breytta fjármögnun heilsugæslunnar og markmið um að færa þetta greiðslulíkan út um land. Ég fylgi því algjörlega eftir að mikilvægt er að gera það. Hins vegar er líka mikilvægt með svona breytingar á greiðslulíkani að gæta að því að taka þarf tillit til teymisvinnu, þróunarverkefna o.s.frv. Það er ekki allt sem er mælanlegt á mjög einfaldan hátt og endurspeglast í fjármagni á hverjum tíma.