148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Þessar viðmiðunartölur um að það séu 9 þúsund manns bak við hvern sálfræðing, þ.e. að hver sálfræðingur sinni 9 þúsund manns, eru samkvæmt niðurstöðu þingsins og er það viðmiðunartalan með faglegum rökum. Við erum að ná því marki með þessari fjölgun sálfræðinga í heilsugæslunni. Það er mat mitt að það sé rétta leiðin að styrkja þessa framlínu, að styrkja fyrstu snertingu almennings við heilbrigðiskerfið í gegnum heilsugæsluna og að það sé aðgengilegt að hitta fleiri heilbrigðisstéttir en lækna og hjúkrunarfræðinga. Ég held að þau skref hafi verið til góðs. Sálfræðingar tala sjálfir um að þessi breyting hafi verið stórkostlega mikilvæg líka varðandi stöðu fagsins og skilning úti í samfélaginu á mikilvægi fags sálfræðinga. Við getum spurt í framhaldinu: Væri ekki rétt að bjóða líka upp á sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun hjá heilsugæslunni? Er það ekki í raun og veru í þá átt sem við eigum að fara? Ef viðkomandi gæti fengið tíma hjá sjúkraþjálfara á meðan hann er að bíða eftir tímanum hjá lækninum þá kann að vera að hann þurfi ekki einu sinni að mæta hjá lækninum vegna þess að hann hafi fengið bót sinna meina. Þannig að þetta er samspil í báðar áttir.

Ég skil hvað hv. þingmaður er að segja. Af hverju opnið þið ekki bara rammasamning fyrir sálfræðinga? Þarna er náttúrlega verkurinn í mínu daglega amstri. Ég ber ábyrgð á heildinni og þarf að gæta að því að sinna markvissum kaupum á heilbrigðisþjónustu fyrir takmarkað opinbert fé. Þess vegna þarf að liggja að baki einhvers konar greining eða einhvers konar skilningur á því hvert sé skynsamlegast að ráðstafa því fé og hvernig það þjóni heildinni sem best. Til þess að við vitum það þurfum við að sjá hvernig þessi geðheilsuteymi virka og fá einhvern tíma til þess að horfa á það og meta reynsluna af því.