148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi spurningu hv. þingmanns um utanspítalaþjónustuna. Ég hef lagt mikla áherslu á þennan þátt heilbrigðisþjónustunnar og ég tel raunar að það sé löngu tímabært að reyna að ná utan um sjúkraflutningana sem hluta af heilbrigðisþjónustunni, hluta af heilbrigðiskerfinu. Oftar en ekki er fyrsta snerting annaðhvort sjúklings eða þess sem hefur orðið fyrir slysi eða óhappi við heilbrigðiskerfið í raun og veru í sjúkrabílnum eða þyrlunni eða flugvélinni. Við þurfum að horfa á það sem upphaf snertingar viðkomandi við heilbrigðiskerfið.

Við höfum verið núna í viðræðum í heilbrigðisráðuneytinu sem lúta að sjúkrabílum og endurnýjun sjúkrabílaflotans. Við höfum viljað vinna það mjög þétt með fagráði sjúkraflutninga og sjúkraflutningamönnum til þess að tryggja að þekkingin úti í feltinu, ef svo má að orði komast, komist öll til skila. Það hefur mætt mjög mikilli ánægju af þeirra hálfu að vera kallaðir að borðinu í þeirri vinnu. Ég vonast til þess að fá á næstu dögum tillögur til mín um það hver næstu skref yrðu, en þarna þurfum við að samhæfa þjónustuna því að hún er eins og margt í okkar ágæta heilbrigðiskerfi töluvert brotakennd og mismunandi leyst eftir landshlutum o.s.frv. Við þurfum að skoða það sem part af okkar heilbrigðisstefnu hvernig við viljum sjá þessu fyrir komið.

Hv. þingmaður spyr síðan um gjaldtökuna í þessum þætti. Þetta er eitt af því sem við höfum verið að ræða, þá einkum um kostnað sjúklinga við að fara suður og bíða, þá erum við kannski fyrst og fremst að tala um fæðandi konur. Hvort við viljum koma meira til móts við þann kostnað held ég að sé eitthvað sem við þurfum að hugsa um.

Hv. þingmaður spyr loks um endurhæfingarstofnun í Hveragerði, Reykjalund og SÁÁ. Ég held að því miður verði það samtal að bíða betri tíma, en ég er mjög meðvituð um þetta ferli allt saman í gegnum endurhæfinguna.