148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:00]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ef ég byrja á því síðasta í fyrirspurn hv. þingmanns þá er það rétt eftir haft að ég fundaði með Hugarfari. Niðurstaða fundarins var minn eindregni vilji til að setja saman starfshóp sem var í raun að beiðni félagsins um bæði stefnumótun og áherslur í málaflokknum. Ég tel að þótt það sé ekki orðað með beinum hætti í fjármálaáætlun þá verði fyrir því séð að það verði í lagi. Ég vil líka nefna það við hv. þingmann að ég leitaði eftir því í ráðuneytinu í byrjun þessarar viku og var sannfærð um það að hópurinn yrði settur í gang fyrir vikulok. Þannig að hv. þingmaður minnir mig á það ef það gengur ekki eftir.

Það sem hv. þingmaður spurði hér um varðandi geðheilbrigðismálin þá er það auðvitað svo að fjölbreytt geðheilbrigðisúrræði snúast í raun ekki bara um það sem með hefðbundnum hætti er kallað geðheilbrigðisþjónusta, hvort það er geðsjúkrahús eða geðheilsuteymi eða hvað það er. Í raun og veru er verið að veita geðheilbrigðisþjónustu um samfélagið allt, til að mynda hjá sálfræðingum í framhaldsskólum og hjúkrunarfræðingum í framhaldsskólum, í grunnskólum, alls staðar þar sem verið er að fjalla um heilsu sem lýtur ekki bara að líkamlegri heilsu heldur líka kvíða, áhyggjum, þunglyndi o.s.frv., þar er verið að veita geðheilbrigðisþjónustu. Þannig að hún er fjölbreytt og hana á að veita á sem flestum stöðum í samfélaginu.

Að leggja niður félagasamtökin Hugarafl — það er ekki á valdi heilbrigðisráðherra að leggja niður félagasamtök. Það mun ég aldrei gera. Ég mun ekki leggja niður Hugarafl frekar en nokkur önnur félagasamtök í landinu, það eru frjáls félagasamtök sem vinna að sínum markmiðum rétt eins og Geðhjálp eða hvaða önnur samtök sem er. En Geðheilsa – eftirfylgd er geðheilsuteymi sem hefur verið til og við viljum að aflinu sem er í Geðheilsu – eftirfylgd verði veitt áfram inn í ný geðheilsuteymi á höfuðborgarsvæðinu. Ég vonast til þess að forvígisfólk þar sé sammála okkur um það.