148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:16]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég þarf auðvitað ekki að minna hæstv. ráðherra á sjónarmiðið um fjölbreytt úrræði sem er undirstrikað af Sameinuðu þjóðunum og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni eftir því sem ég best veit. Auðvitað þarf ekki að benda ráðherra á það sem ráðherra má að sjálfsögðu vera fullljóst, að úrræði á borð við það sem við fjöllum um hér og nú, Geðheilsa – eftirfylgd og Hugarafl, og hið opinbera kerfi sem ráðherra leggur mikla áherslu á útiloka ekki hvort annað. Þetta eru engin rök í málinu. Hér hefur ósköp einfaldlega verið kallað eftir því að ráðherra slái skjaldborg um þessa starfsemi, láti það ekki gerast á vakt ráðherra að þessi starfsemi sem hefur skilað frábærum árangri að dómi þeirra sem hennar hafa notið fordjarfist og líði undir lok með þessum hætti.

Ég á mér þá ósk til handa ráðherra að ráðherra sé ekki í þeirri vörn hér í þessu máli að telja sig tilneydda til að fara að svara einhverjum spurningum sem ekki hafa verið lagðar fyrir ráðherra, eins og það hvort hún muni standa að því að leggja niður Hugarafl. Auðvitað dettur engum manni í hug að ráðherra í ríkisstjórn Íslands leggi niður frjáls félagasamtök. (Gripið fram í.)

Ég ítreka hvatningu mína (Gripið fram í.) til hæstv. ráðherra um að endurskoða hreinlega afstöðu sína í þessu máli, slá skjaldborg um úrræði sem hefur að allra dómi reynst vel og koma fram sem sigurvegari í þessu máli, en vera ekki á þeirri óheillabraut sem mér sýnist hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra því miður hafa ratað inn á.