148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:18]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það sem skiptir mestu máli í þeim málaflokki sem hér er undir, eins og í heilbrigðismálum almennt, er að við sem tökum ákvarðanir gætum að því að missa ekki sjónar á því að þetta snýst þegar allt kemur til alls um notandann, um þann sem þarf á heilbrigðisþjónustunni að halda. Það snýst ekki um forráðamenn eða forvígismenn einhverra tiltekinna úrræða eða eitthvað slíkt heldur um það að úrræðin sem eru í boði séu góð, gagnreynd og þannig að þau nýtist notendum þjónustunnar sem best.

Heilbrigðiskerfið á Íslandi er samansett af allnokkrum stofnunum. Ein þeirra stofnana er Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins. Sú stofnun hefur með faglegum rökum komist að tiltekinni niðurstöðu um skipan mála að því er varðar geðheilsuteymin. Ég hef beðið um bæði fjárhagsleg og fagleg rök fyrir þessari niðurstöðu vegna þess að upp hafa kornið efasemdir og spurningar, bæði hjá forvígismönnum viðkomandi úrræðis og líka í pólitíkinni og í fjölmiðlum.

Ég bað um þessar upplýsingar til að velta upp möguleikanum á því að það væru forsendur til að draga niðurstöðu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í efa. Þau rök hef ég ekki séð. Ég hef ekki séð neitt annað en það að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hafi bæði fjárhagsleg og fagleg rök með tilvísun í geðheilsustefnu Alþingis til að komast að þessari niðurstöðu.

Þegar um er að ræða einstakar ákvarðanir sem stofnanir ráðuneytisins taka vil ég í lengstu lög komast hjá því að grípa inn í með þeim hætti sem hv. þingmaður leggur hér til.