148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:24]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Ég verð eiginlega að segja við hæstv. ráðherra að ég vona að svo verði ekki vegna þess að ég er komin í allt annað núna. Við verðum bara að eiga þá umræðu seinna.

Ég stend náttúrlega ekki hér án þess að tala um rekstrarform í heilbrigðisþjónustu, sérstaklega vegna þess að hinn ágæti fyrrverandi talsmaður einkaframtaksins, Sjálfstæðisflokkurinn, virðist bera búinn að stimpla sig algjörlega út úr þeirri umræðu. Rauður þráður í þeim köflum fjármálaáætlunarinnar sem varðar heilbrigðisþjónustuna er styrking hins opinbera heilbrigðiskerfis og það er vel. Það eru leiðirnar að þeirri styrkingu sem mig langar til að ræða, hversu langt verður gengið í að efla hið opinbera kerfi á kostnað þeirra fjölmörgu einkaaðila sem hafa um árabil, um áratugabil, lagt sitt af mörkum við að byggja upp öflugt og gott heilbrigðiskerfi.

Mig langar til að spyrja um heilbrigðishjúkrunarþjónustuna Karitas. Hún hefur frá árinu 1994 sinnt samkvæmt þjónustusamningi hjúkrunarþjónustu fyrir fólk með langvinna og ólæknandi sjúkdóma, og ef hér væri fullur salur þá gæti ég fullyrt að hér væru ýmsir sem ættu þeirri þjónustu margt gott að þakka. Staðan er svo núna, og ég veit að hæstv. ráðherra veit það, að samningurinn er í uppnámi. Þær þar eru einfaldlega búnar að gefast upp. Af hverju? Þær eru búnar að missa starfsfólk yfir til Landspítalans sem hefur yfirboðið, boðið betri kjör.

Nú er svo komið að Karitas sagði upp samningnum fyrir mánuði síðan og mun hætta starfsemi í haust ef svo fer sem horfir. Starfsemin hefur þegar farið að draga saman seglin, fækkað skjólstæðingum og nú virðast þær vera nauðbeygðar, ef ekki verður betrumbót þar á, til að leggja starfsemina af.

Þetta stækkar vissulega starfsemi Landspítalans. Spurningin er: Er það markmiðið? Eflir þetta heilbrigðisþjónustuna? Þetta er mögulega, ég segi mögulega, eitt af þeim lykilatriðum þar sem okkur hæstv. heilbrigðisráðherra greinir á um. Er tilfærsla þessara mikilvægu, góðu og viðkvæmu þjónustu sem Karitas hefur veitt fjölda fólks í áratugi yfir til Landspítalans til þess fallin að bæta kerfið okkar? Þó að ég sé að spyrja um Landspítalann má yfirfæra þetta á fjölda annarra aðila. Mig langar að fá svar við þessu.