148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:29]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Íslenska þjóðin er að eldast. Það erum við hæstv. ráðherra líka að gera. Einstaklingum á biðlistum eftir dvöl á hjúkrunarrými hefur á síðustu fimm árum fjölgað úr 180 í 368 og biðtími lengst mikið. Hjúkrunarrýmum hefur hins vegar einungis fjölgað um 90 síðan árið 2010 eða um 3,5% á sama tíma og einstaklingum 80 ára og eldri hefur fjölgað um tæp 11%. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar stendur, með leyfi forseta:

„Skortur á hjúkrunarrýmum veldur auknu álagi á sjúkrahúsin og skerðir lífsgæði aldraðra. Fyrir liggur að þörf fyrir uppbyggingu er veruleg á næstu fimm árum. Ráðist verður í stórsókn í uppbyggingu og mun hún birtast í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.“

Nú höfum við fengið að sjá fjármálaáætlunina. Svart á hvítu er þessa stórsókn hvergi að finna. Gert er ráð fyrir 550 nýjum hjúkrunarrýmum á tímabilinu en fé til uppbyggingar er af skornum skammti og dugar fyrir um það bil 120 rýmum. Þar fyrir utan er ekki nóg að byggja hjúkrunarheimili. Það þarf nefnilega líka að reka þau. Staðan er sú í dag að þau eru rekin með nokkurra milljarða kr. halla á hverju ári. Sá halli er greiddur af rekstraraðila, m.a. sveitarfélögunum. Það er ekki óvarlegt að ætla að sveitarfélög borgi um 1 millj. kr. með hverju dvalarrými á hverju einasta ári. Þetta fé þurfa sveitarfélögin að taka af annarri þjónustu sem þau reka.

Það er ekki síst bagalegt þar sem þessi sveitarfélög eru í samkeppni hvert við annað og við útlönd. Þau þurfa að skera niður framlög til menningar, íþrótta og jafnvel félagsþjónustu aldraðra. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að það sé einhver möguleiki á að fullfjármagna þessi loforð sem standa í fjármálaáætluninni og að minnsta kosti hvernig hún hyggist bæta rekstrarfé inn í málaflokkinn þannig að kostnaði sé ekki velt yfir á einhverja aðra en þá sem eiga raunverulega að bera hann.