148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:31]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á stöðu hjúkrunarheimila. Ég er mjög stolt af að vera heilbrigðisráðherra sem kynnir til sögunnar að það standi til að bæta við fyrirliggjandi fjármálaáætlun, þar sem var gert ráð fyrir fjölgun upp á 250 rými á næstu fimm árum, eða fjórum árum í raun, 300 rýmum við þann fjölda. Það held ég að sé eitthvað sem við getum verið stolt af. Þar til viðbótar erum við að tala um umtalsverða fjölgun á rýmum sem ætlað er að bæta aðbúnað, þ.e. 550 ný rými og þar að auki 240 þar sem aðbúnaður verður bættur.

Að sjálfsögðu eru þessar framkvæmdir allar fjármagnaðar í fjármálaáætlun. Það er auðvitað svo. Mér er það bara gleðiefni að fara yfir þau mál með hv. þingmanni hér einhvers staðar. Þegar öllu er til haga haldið þegar farið er yfir viðbótarframlög til stofnfjárfestinga eru það rúmlega 100 milljarðar á tímabilinu öllu. Þar er gert ráð fyrir þessari uppbyggingu hjúkrunarrýma.

Hv. þingmaður nefnir mál sem er gríðarlega mikilvægt. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna er talað um að bæta rekstrargrunn hjúkrunarheimilanna. Við það verðum við að standa. Um það verðum við auðvitað að ræða. Ég geri ráð fyrir að við munum fara yfir þau mál með þeim sem um reksturinn halda, þar með talið Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Eins og kemur fram í máli hv. þingmanns er gríðarlega mikilvægt að eiga þessi samtöl við sveitarfélögin, ekki síst vegna þess að svo virðist sem nú líti út fyrir að fyrri áform um að flytja málaflokk aldraðra til sveitarfélaganna séu komin á bið til langs tíma.