148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að kjaramálin eru þau mál sem eru mest aðkallandi akkúrat núna. Þau eru í raun og veru ein hlið fyrir þá sem hér stendur á þessum mönnunarvanda í heilbrigðiskerfinu. Því að sá mönnunarvandi snýst ekki bara um kaup og kjör með hefðbundnum hætti heldur líka um þá staðreynd að starfsumhverfið er sífellt meira krefjandi. Möguleiki til starfsþróunar og þátttöku í vísindastarfi fer minnkandi að sumu leyti. Við sjáum t.d. tölur um að Landspítalinn hefur verið að dragast aftur úr hvað vísindastarf varðar. Þetta er allt saman partur af því hvernig fólki líður í vinnunni og hvernig það þróast frá degi til dags. Staða heilbrigðisstétta lýtur ekki bara að þessum þætti, þ.e. hvernig kjaraumhverfið raðast akkúrat núna í þessum töluðu orðum.

Það sem ég vil leggja til er að í fyrsta lagi verði mannaflaspá hraðað. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við sjáum til lengri tíma hvað samfélagið þarf, ef svo má að orði komast, til þess að drífa heilbrigðiskerfið áfram inn í lengri framtíð. En svo eru til tillögur sem unnar hafa verið bæði innan búðar á Landspítalanum og í ráðuneytinu sem lúta að einstökum þáttum í starfsumhverfi og starfskjörum tiltekinna heilbrigðisstétta. Þetta eru tillögur sem unnar hafa verið að hluta til með viðkomandi hópum. Þessar tillögur eru til og ég vil leggja þær á borð fyrir fjármálaráðherra og forsætisráðherra þar sem við gætum sameiginlega og með ábyrgum hætti komið að því að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til þess að við séum ekki að því ítrekað að mennta heilu hópa heilbrigðisstétta og missa síðan þá hópa út, mér liggur við að segja, hægri mönnum til gleði; missa þá fjárfestingu út úr höndunum sem samfélagið hefur lagt á sig, út úr (Forseti hringir.) heilbrigðiskerfinu vegna þess að fólk treystir sér ekki til að vinna þau störf.