148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:48]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þegar kemur að umfjöllun um heilbrigðisstarfsfólk í stjórnarsáttmálanum er talað um að skapa eftirsóknarverðan starfsvettvang fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Ég sé hvað átt er við. Menn vildu kannski ekki taka eins djúpt í árinni og þeir gerðu einu sinni. Þá var talað um að kjörin væru sambærileg við Norðurlandaþjóðirnar. Þetta er svolítið útvatnað orðalag hvað það varðar, ef ég er bara alveg heiðarlegur.

Það er alveg rétt sem heilbrigðisráðherra segir: Hvað er það sem heldur í heilbrigðisstarfsfólk? Það sögðu mér tveir landlæknar þegar ég var að skoða þessi mál á sínum tíma að það væru launin og aðbúnaðurinn og vinnuálagið sem skiptu máli fyrir starfsfólk. Vinnuálagið skiptir máli í þessu. Ég ætla því að vona að heilbrigðisráðherra takist að sannfæra forsætis- og fjármálaráðherra um að finna farsæla lausn í sátt með heilbrigðisstarfsmönnum, (Forseti hringir.) nú ljósmæðrum og svo öðrum sem eru með lausa samninga. Ég mun styðja það. En ég mun berjast harkalega á móti því ef menn ætla að reyna að setja aftur lög á verkföll. Það verður ekki í boði hér. Ég er byrjaður að spyrja grasrót Pírata hvort hún styðji ekki málþóf ef menn ætla að fara þá leiðina.