148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:51]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra. Hún sagði í ræðu áðan að fagleg úttekt hefði verið gerð á því að það væri í lagi að leggja niður geðteymi Hugarafls. Ég spyr þá: Hvaða faglega úttekt var það? Við erum að tala um dauðans alvöru, um líf fólks. Ég segi fyrir mitt leyti: Mér hugnast ekki að missa fleiri vini vegna þess að kerfið bregst þeim. Þetta er mjög alvarlegt mál. Ég spyr vegna þess að ekki er um háar upphæðir að ræða. Við erum að tala um 10% af því sem er reiknað með í þennan flokk, eftir því sem mér skilst, á höfuðborgarsvæðinu, um 500 milljónir. Þetta eru 50 til 60 milljónir sem um ræðir.

Leyfum þessu teymi að starfa áfram án þess að rífa það niður meðan hitt er að byggjast upp. Sýnum það alla vega í verki.

Svo er annað sem mig langar til að tala um og það er í sambandi við kostnað öryrkja og eldri borgara utan af landi við að komast til læknis og svoleiðis. Ég veit að fólk kemst ekki út af kostnaði. Það hefur ekki efni á því. Hvernig á að bregðast við? Það verður mun dýrara fyrir heilbrigðiskerfið ef leggja þarf þetta fólk inn vegna þess að það nær ekki í þessa þjónustu.

Þá einnig í sambandi við tannlækningar eldri borgara og öryrkja: Fólk neitar sér um þetta. Ég veit það. Ég hef verið hinum megin við borðið. Það er ekki spurning, þetta er bara síðast á dagskránni. Númer eitt, tvö og þrjú er að eiga fyrir mat og þá vantar þetta fólk líka peninga til að fara til læknis og kaupa lyf.

Þannig að ég ætla að spyrja: Hver er framtíðarsýnin í þessu? Ætlum við að sjá til að þessu verði komið í lag?