148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:55]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir þessi svör. Ég treysti því og trúi að tannlækningum og öðru verði komið í lag. En hún svaraði engu í sambandi við Hugarafl og geðteymið. Ég vona að hún komi að því á eftir. En ég vil benda á að það að draga úr, eins og ég sagði við hæstv. forsætisráðherra fyrr í dag, kostnaði fær mig til að fá hroll. Það er fólk þarna úti sem hefur bara ekkert efni á þessu. Þá eigum við að tryggja að viðkomandi þurfi ekkert að „draga úr“ heldur fái þjónustuna ókeypis, geti farið í þessa þjónustu án þess að hafa fjárhagsáhyggjur. Það gildir einu hver sjúkdómurinn er, hvort það er krabbamein eða annað. Við eigum að sjá til þess að fólk geti labbað inn á næstu heilsugæslustöð eða sjúkrahús og fengið þá þjónustu sem það þarf á að halda án þess að þurfa að taka upp veskið. Það hefur ekki efni á því. Ég ætla að trúa því og treysta að það verði svoleiðis.