148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:28]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góðar spurningar. Það má kannski segja að þetta fari allt eftir því einfaldlega hvernig horft er á hlutina, hvað er að koma inn og hvað er að fara út. Það fer meira fjármagn í loftslagsmálin samanlagt núna á næstu fimm árum en kemur inn með þessari aukningu í kolefnisgjaldinu núna 2018, 2019 og 2020. Það mun vissulega ekki allt fara í skógrækt, enda gríðarlega mikilvægt að draga úr losuninni með öllum tiltækum ráðum í öllum geirum og síðan er það eiginlega afgangurinn sem við eigum að líta á að við séum að nýta þau tækifæri sem felast í landgræðslu, skógrækt, endurheimt votlendis og slíkum aðgerðum.

Það er því kannski erfitt að svara spurningunni hvort við getum nýtt gjaldið til þess að kolefnisjafna alla umferðina. Það má kannski segja það, ég veit ekki hvernig tölurnar eru nákvæmlega, en hins vegar held ég að við verðum alltaf að nálgast þetta þannig að við getum gripið til fjölmarga aðgerða og skógrækt er vissulega ein af þeim.

Varðandi þann græna geira er mjög mikilvægt að horfa til þess að landgræðsla og endurheimt votlendis eru aðgerðir sem hægt er að grípa til strax. Endurheimt votlendis skilar okkur strax árangri vegna þess að þá blokkerum við bara útblásturinn, en það tekur lengri tíma eins og hv. þingmaður benti á varðandi skógræktina.

Ég geri ráð fyrir því að það liggi fyrir núna á árinu, væntanlega þegar við förum í fjárlagagerðina, einhverjar tillögur um það hvernig þessi skipting verði nákvæmlega. En það er mjög mikilvægt að eiga í góðu samstarfi við stofnanir okkar hvað það varðar. Ég get svo sem ekki sagt nákvæmlega til um það núna hvenær það verður tilbúið, en við vinnum hörðum höndum að þessu.