148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:32]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að byggja og hlúa vel að því sem við þegar eigum því það skiptir gríðarlega miklu máli. Í því samhengi má nefna, af því að hv. þingmaður nefndi sérstaklega jarðvangana, að það er samningur milli ráðuneytisins og Kötlu jarðvangs sem ég man ekki alveg hvenær var gerður, hvort það var 2016 eða 2017. Ég er að skoða í ráðuneytinu hvernig best sé að koma þessum málum fyrir til framtíðar, því vissulega heyra þessir jarðvangar ekki beint undir ríkið, en það er mjög spennandi að búa til samstarf við sveitarfélögin um þetta líkt og við höfum um náttúrustofur. Hins vegar þarf að skoða þetta líka út frá þeirri spurningu hvort við eigum við von á því að það komi margir fleiri jarðvangar annars staðar á landinu og hvað þetta þýðir í heild sinni.

Ég get upplýst um það að núna á árinu 2018 lagði ég sérstaka áherslu á að fé yrði stóraukið til jarðvangsins t.d. á Suðurnesjum vegna landvörslu, einmitt til þess að hægt sé að mæta þeim áskorunum sem aðilar þar standa frammi fyrir til að vernda náttúruna.

Almennt séð þá horfum við til þess á næstu fimm árum að um 2,2 milljarðar, ef ég man þetta rétt, fari í að auka landvörslu. Þar erum við að tala um bæði heilsárslandvörslu og síðan hlutastörf. Það verður mjög spennandi að nýta þessa fjármuni til þess að efla starfið á þeim friðlýstu svæðum sem þegar eru til staðar.

Svo eru stjórnvöld náttúrlega eins og ég gat um í upphafi skuldbundin til þess að friðlýsa allmörg svæði sem enn hafa ekki verið friðlýst, þannig að markmiðið með samspilinu þarna á milli er að við getum fjölgað störfum úti á landi og aukið náttúruverndina að sama skapi.