148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:34]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Herra forseti. Ég þakka umhverfisráðherra fyrir að setja fram háleit markmið varðandi umhverfismál á Íslandi næstu fimm árin. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er tekið skýrt fram að stofna eigi þjóðgarð á miðhálendinu í samráði við þverpólitíska þingmannanefnd auk annarra samtaka er málið varðar.

Í stefnuræðu forsætisráðherra, við setningu yfirstandandi þings segir, með leyfi forseta:

„Ný ríkisstjórn leggur áherslu á miðhálendisþjóðgarð og friðlýsingar þeirra svæða sem þegar hefur verið skipað í verndarflokk rammaáætlunar.“

Auk þess sat ég ásamt fulltrúum allra flokka á málþingi um stöðu umhverfismála hér rétt fyrir kosningar þar sem allir gáfu það út að vera bara mjög til í að stofna miðhálendisþjóðgarð.

Eins og ég skil þessi loforð og þessa þverpólitísku samstöðu þá eru allir mjög spenntir fyrir stofnun umrædds þjóðgarðs. Vegna þessara loforða og þverpólitísku sáttar hjó ég þó eftir ítarlegri umfjöllun um miðhálendisþjóðgarðinn í umræddri áætlun, en hana var ekki að finna.

Því vil ég spyrja umhverfisráðherra: Er sá þverpólitíski vilji sem virtist vera fyrir stofnun þjóðgarðsins raunverulegur? Telur ráðherra, miðað við það fjármagn sem ætlað er í málefnaflokkinn umhverfismál, að það sé raunhæft að stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu, og sú starfsemi sem sú stofnun felur í sér, sé að fullu fjármögnuð miðað við fyrirliggjandi fjármálaáætlun?