148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:38]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Ég þakka ráðherra fyrir þessi svör. Ég velti þessu fyrir mér sérstaklega í ljósi þeirrar ætluðu þverpólitísku samstöðu að taka umhverfismál föstum tökum, enda ekki seinna vænna. Umhverfismál hafa setið á hakanum síðustu ár sem er miður þar sem Ísland gæti og ætti að vera í fararbroddi um markmiðssetningu og eftirfylgni í umhverfismálum.

Annað sem virtist hafa þverpólitíska samstöðu hér um árið var fullgilding Parísarsamningsins, en í honum er að finna framsækin markmið um hvernig eigi að taka á slæmri stöðu loftslagsmála á heimsvísu. Þingið hefur hins vegar átt það til að velja ákvæði í umhverfismálum sem henta okkur vel. Til að mynda var ákveðið að fara ekki þá leið um fullgildingu Árósasamningsins að tryggja aðild félagasamtaka að málum er varða umhverfismál.

Það er ljóst að það er mikil vinna eftir til að standa við alþjóðaskuldbindingar Íslands að sáttmálum um umhverfismál. Þó að umhverfisráðherra setji hér fram háleit markmið og sé allur af vilja gerður til að vinna umhverfismálum vel og með þverpólitískan stuðning á bak við sig þá er umhverfisráðherra því miður ekki að byrja á núllpunkti hvað þetta varðar. Við eigum langt í land með að ná núllpunkti og mikil vinna er eftir til þess að Ísland geti verið í fararbroddi hvað varðar umhverfismál á alþjóðavísu.

Því vil ég ljúka máli mínu með því að spyrja umhverfisráðherra: Er það fjármagn sem ætlað er í málaflokkinn nóg til þess að ná núllinu og þegar því er náð að stefna að því að verða fyrirmynd annarra þjóða hvað varðar umhverfismál?